Starfsafl fagnar 20 árum
Starfsafl óskar öllum gleðilegs nýs ár og þakkar fyrir það liðna.
Árið var sannatlega áhugavert og mikil gróska í fræðslu fyrirtækja. Það er vel og ljóst að halda þarf vel utan um þau mál ef árangri á að ná, þar sem störfin taka sífelldum breytingum, jafnvel hverfa og ný störf verða til.
Í vor mun Starfsafl fagna 20 ára afmæli, en það var árið 2000 sem fræðslusjóðurinn varð til í tengslum við kjarasamninga. Þá var samið um stofnun sérstaks sjóðs sem ætlað er að byggja upp menntun almennra starfsmanna fyrirtækja. Tekjur sjóðsins eru samningsbundin gjöld atvinnurekenda (starfsmenntaiðgjald) til sjóðsins eins og um semst á hverjum tíma.
Á þeim 20 árum sem liðin eru hafa orðið miklar breytingar í viðhorfi til fræðslu á vegum fyrirtækja. Nú er litið á vinnustaði sem námsstaði og rík áhersla lögð á tækifæri til náms og starfþróunar á vinnustað.
Félagsmenn njóta þeirra kjarasamningsbundnu réttinda að geta sótt um styrk vegna fræðslu samkvæmt þeim reglum sem um það gilda. Stéttafélögin sjá um alla umsýslu fræðslustyrkja fyrir Starfsafl, þ.e.móttöku umsókna og afgreiðslu styrkja. Þetta þekkja flestir félagsmenn ágætlega og hafa nýtt sér vel en sl. ár hafa endurgreiðslur styrkja verið um tvöhundruð milljónir króna.
Fyrirtækin leita leiða til að koma fræðslu á framfæri til sinna starfsmanna og margir félagsmenn njóta góðs af því. Þar má heldur ekki slá slöku við því vinnuumhverfið er síbreytilegt og mikilvægt að búa yfir ákveðinni aðlögunarhæfni, geta tileinkað sér nýja færni og vera í stakk búin til að taka breytingum. Símenntun starfsmanna er sannarlega lykill fyrirtækja að betra starfsumhverfi, aukinni framleiðni og getur styrkt samkeppnisstöðu þeirra
Reglur Starfsafls hafa tekið breytingum í takt við breyttar þarfir atvinnulífsins og þeirra einstaklinga sem þar starfa. Undir lok síðasta árs var sett regla sem tekur til rafrænnar fræðslu og um áramót tók gildi veruleg hækkun á hámarki einstaklingsstyrkja, úr 100.000 kr. í 130.000 kr. Samhliða þessari hækkun fór þriggja ára styrkurinn úr 300.000 í 390.000 kr.
Við erum hvergi nærri hætt og munum áfram horfa fram á veginn og nýta sjóðinn til góðra verka á vettvangi fræðslu- og menntunar í atvinnulífinu.
Við erum rétt að byrja.
Með kveðju,
Lísbet Einarsdóttir,
Framkvæmdastjóri Starfsafls.