Sértæk verkefni – rýnt í ársskýrslu 2024

Árlega berast Starfsafli  umsóknir um styrki vegna sértækra verkefna, það er verkefna sem falla utan almennra styrkja til einstaklinga og fyrirtækja. Slík verkefni lúta sérstöku ákvæði um námsefnisgerð, nýsköpun og þróun og fara ætíð til umfjöllunar og samþykktar hjá stjórn Starfsafls.

Á árinu 2024 samþykkti stjórn Starfsafls að veita styrki til fimm sértækra verkefna.

 Hér að neðan eru verkefnin sem hlutu styrk kynnt nánar;

1. „Do’s & Don’ts when welcoming foreign guests“

Verkefnið fólst í þróun námsefnis sem miðar að því að efla þjónustulund og menningarlæsi starfsfólks í ferðaþjónustu. Í umhverfi þar sem ólíkir menningarheimar mætast er fræðsla og þjálfun lykilatriði til að tryggja árangur og ánægju gesta. Stjórn Starfsafls samþykkti einróma að veita umsækjandanum, Margréti Reynisdóttur, eiganda Gerum betur ehf., styrk vegna nýsköpunar og þróunar námsefnisins. Markmið verkefnisins var að auka skilning starfsfólks á ólíkum þörfum og væntingum gesta af mismunandi þjóðerni.

2. Stafræn þróun og stuðningsefni fyrir ferðaþjónustu

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sótti um styrk til þróunar stafrænna verkfæra og fræðsluefnis fyrir ferðaþjónustuna. Verkefnið var unnið í samstarfi við Ferðamálastofu og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, sem jafnframt ber ábyrgð á verkefnaumsjón. Markmið verkefnisins er að efla stafræna færni og bjóða upp á notendavænt viðmót og hagnýt verkfæri sem styðja við hæfniþróun innan greinarinnar.

3. Menntadagur atvinnulífsins 2024

Samtökum atvinnulífsins var veittur styrkur vegna Menntadags atvinnulífsins sem haldinn var í ellefta sinn árið 2024. Yfirskrift dagsins var „Göngum í takt: Er menntakerfið að halda í við þarfir atvinnulífsins?“  Viðburðurinn er árlegt samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þeirra og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur stefnumótunar í mennta- og atvinnumálum.

4. Fræðsla til framtíðar

Verkefnið var unnið í samstarfi Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og helstu starfsmenntasjóða atvinnulífsins, þar með talið Starfsafls. Um er að ræða þróunar- og stefnumótunarverkefni sem miðar að því að styðja stjórnendur lítilla og meðalstórra ferðaþjónustufyrirtækja í að byggja upp sjálfbæra fræðslustarfsemi innan síns fyrirtækis. Verkefnið var skilgreint sem tilraunaverkefni með 12 mánaða tímaramma og gert ráð fyrir þátttöku allt að 20 fyrirtækja. Í lok árs 2024 var verkefninu ekki enn lokið, en það var í fullum gangi og gert ráð fyrir að því lyki um mitt ár 2025.

5. Fræðsla um sjálfbærni á mannamáli

Samþykkt var að veita Laufið ehf umbeðin styrk til að útbúa f ræðsluefni sem hannað væri með það fyrir augum að veita stjórnendum skýra yfirsýn yfir ávinning sjálfbærrar stefnumörkunar fyrir reksturinn sjálfan, umhverfið og samfélagið í heild. Með því að leiða fyrirtæki í gegnum hagnýt atriði og verkfæri, er fræðslan ætluð til að hvetja til aðgerða og breytinga. Markmiðið er að veita þeim þá þekkingu og sjálfstraust sem þarf til að stíga fyrstu skrefin að sjálfbærum rekstri.  Verkefnalok voru í lok sumars 2025 og styrkur greiddur út í framhaldinu.

Í reglum um styrki til fyrirtækja má nálgast eyðublað vegna umsókna um styrk vegna námsefnisgerðar, nýsköpunar og þróunarverkefna. Athugið að aðeins eru styrkt verkefni sem taka til félagsmanna.

Frekari upplýsingar má fá á skrifstofu Starfsafls.

Myndin er fengin hér