Securitas menntasproti ársins
Securitas var valinn menntasproti ársins en mikið og öflugt frumkvöðlastarf er unnið í fræðslumálum hjá fyrirtækinu. Securitas hefur tileinkað sér nýjustu tækni í miðlun fræðslu og náð mjög góðum árangri í svokallaðri speglaðri kennslu. Verðlaunaafhendingin fór fram á Menntadegi atvinnulífsins sl. fimmtudag.
„Við hjá Securitas erum afar hreykin og þakklát fyrir að vera valin menntasproti atvinnulífsins 2016. Verðlaunin eru okkur mikil hvatning og um leið viðurkenning á þeirri fræðslustefnu sem við höfum verið að móta. Securitas leggur metnað sinn í að starfsmenn séu vel þjálfaðir og meðvitaðir um nýjungar í sinni starfsgrein. Starfsþróunarmöguleikar eru miklir innan Securitas og starfsmenn eru hvattir til að auka hæfni sína og getu, bæði sem einstaklinga og liðsmenn,“ segir segir Einar Páll Guðlaugsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Securitas. Þess má geta að Hlíf Böðvarsdóttir, fræðslustjóri Securitas, er einnig í stjórn Starfsafls fræðslusjóðs. Starfsafl hefur á undanförnum árum fylgst með og tekið þátt í fræðslustarfi Securitas með styrkveitingum.
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
Starfsafl óskar Securitas hjartanlega til hamingju með árangurinn!
Hlíf Böðvarsdóttir, fræðslu- og gæðastjóri Securitas, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Guðmundur Arason, forstjóri Securitas. (Mynd: Samtök atvinnulífsins. Byggt á frétt á vef Samtaka atvinnulífsins: http://sa.is/frettatengt/frettir/icelandair-hotels-menntafyrirtaeki-arsins/)