Samstarf við Retor málaskóla

Starfsafl og Retor tungumálaskóli ehf. hafa gert með sér samning um samstarf á sviði fræðslu. Samningur felur í sér að hvor aðili um sig kynnir þjónustu hins fyrir fyrirtækjum. Starfsafl hefur gert fjölda slíkra samninga við fræðsluaðila sem miðast að því að kynna þjónustu sjóðsins fyrir fyrirtækjum.

Retor Tungumálaskóli hefur frá stofnun árið 2008 sérhæft sig í að veita innflytjendum íslenskukennslu á stigum 1-5 en býður auk þess ýmis konar fræðslu á móðurmáli.

Haustið 2009 tók Retor að sér þróun sérhæfðs námsefnis fyrir Vinnumálastofnun. Helstu úrræði sem Retor hefur tekið að sér að þróa fyrir innflytjendur í atvinnuleit eru: Samfélagsfræðsla, Atvinnuleit, Námstækni, Sjálfstyrking, Þjónustulund og Fyrirtækjarekstur ásamt íslenskukennslu á stigum 1-5. Þessi námskeið gagnast jafnframt fólki í vinnu en mikið magn hagnýtra upplýsinga um íslenskt samfélag er að finna í námsefninu. Markmið námskeiðanna er jafnframt að styrkja fólk og auðvelda því aðlögun að íslensku samfélagi.

Retor lítur svo á að með skipulagðri, skilvirkri og markvissri íslenskukennslu sé stuðlað að því að innflytjendur geti verið virkir þátttakendur í vel upplýstu fjölmenningarsamfélagi. Gríðarlega mikilvægt er að fjárfesta í þeim mannauð sem falinn er í þessum fjölbreytta hóp. Styrkir Menntamálaráðuneytis í íslenskukennslu fyrir innflytjendur eru máttarstólpar umræddrar fjárfestingar. Um er að ræða einn af lykilþáttunum í tengslum við aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og jafnframt eitt af lykilmarkmiðum í starfsemi Retor Tungumálaskóla.

20150930_111810sm2

Frá undirritun samstarfssamnings í morgun, f.v. Sara María Karlsdóttir, verkefnastýra Retor, Hjalti Ómarsson, frkv.stj. Retor, Sveinn Aðalsteinsson, frkv.stj. Starfsafls fræðslusjóðs.