Samstarf mikilvægara en samkeppni

Nú er lokið klasaverkefni í Fræðslustjóra að láni í ferðaþjónustu en verkefnið var fjármagnað af Starfsafli og Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks. Þau fyrirtæki sem tóku þátt í verkefninu voru Frost og funi, Skyrgerðin-Cafe & Bistro, Hótel Örk, Almar bakari og Gistiheimilið Frumskógar. Ráðgjafi í verkefninu var Sverrir Hjálmarsson, stjórnunarráðgjafi hjá Vexti og ráðgjöf og verkefnastjórar þess voru Valdís Steingrímsdóttir, Starfsafli og Selma Kristjánsdóttir, SVS.
 
Um tilraunaverkefni var að ræða, þar sem  greindar voru fræðsluþarfir  fyrirtækjanna á grundvelli stefnu hvers fyrirtækis.  Afurðin er ein sameiginleg fræðsluáætlun sem mun ná til allra fyrirtækjanna og taka tillit til þarfa hvers fyrirtækis fyrir sig.  Frumkvæði að verkefninu eiga sjóðrnir og kostaði framkvæmd þess um 800 þúsund krónur og er þá undanskilið vinnuframlag starfsfólks fyrirtækjanna sem tóku þátt. 
 
Til að fagna tímamótunum var boðið til lokafundar í Skyrgerðinni, Hveragerði, fimmtudaginn 9. febrúar og var fjöldi gesta á þriðja tug.  Á dagskrá fundarins var kynning á tilurð verkefnisins, vinnuferlinu og næstu skrefum.  Á mælendaskrá voru Valdís Steingrímsdóttir, verkefnastjóri Starfsafls, Elfa Dögg Þórðardóttir, eigandi Skyrgerðarinnar, Sverrir  Hjálmarsson ráðgjafi og Sanda D. Gunnarsdóttir frá Fræðsluneti Suðurlands. 
 
Valdís bauð gesti velkomna og sagði mikla ánægju með verkefnið og  að fleiri væru farnir að líta til þessa klasaverkefnis og skoða hvort hægt væri að fara sömu leið. Sverrir  kynnti afurð verkefnisins og sagði hann augljós sú vitneskja fyrirtækjanna, að þau hefðu hag af því að vera í samstarfi og því hefði öll vinna gengið mjög vel, framar vonum.
 
Elfa Dögg sagði að fyrir nokkrum árum hefðu verið stofnuð ferðamálasamtök og því þekktust aðilar innan ferðaþjónustugeirans á svæðinu nokkuð vel.  Í framhaldi af því sagði hún að samstarf væri meira heldur en samkeppni og því augljós hagur af því að taka þátt verkefninu.  Fræðslu er ábótavant og flókið að koma henni á en með þessum hætti getum við það.  Þetta er mikilvægt en aukin fræðsla eflir sjálfstraust og vellíðan starfsfólksins okkar sem síðan skilar sér til gestanna sagði Elfa.  
 
Að síðustu steig Sandra í pontu og kynnti næstu skref, en nú liggur boltinn þar og þeim ætlað að  halda utan um þá fræðsluáætlun sem liggur fyrir.  Fyrsta námskeið af mörgum er í febrúar en fræðsluáætlunin nær til næstu 12 mánaða, að sumrinu undanskildu.
 
Fundarstjóri var Selma Kristjánsdóttir. 
 

Á myndinni eru Valdís Steingrímsdóttir, verkefnastjóri Starfsafls, Elfa Dögg Þórðardóttir, eigandi Skyrgerðarinnar, Sverrir  Hjálmarsson ráðgjafi og Sanda D. Gunnarsdóttir frá Fræðsluneti Suðurlands.