Össur fær Fræðslustjóra að láni
Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við fyrirtækið Össur Iceland ehf. Fjórir sjóðir; Starfsafl, Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks. Landsmennt og starfsmenntasjóður verkfræðingafélags Íslands koma að verkefninu og greiða hlutfallslega fyrir félagsmenn sinna stéttafélaga.
Hjá Össur starfa 550 einstaklingar hér á landi og þar af eru 140 í þeim félögum sem standa að Starfsafli.
Össur var stofnað á Íslandi árið 1971 og er nú orðið alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki sem hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur með það að markmiði að bæta hreyfanleika fólks. Fyrirtækið er sannarlega leiðandi afl á heimsvísu með um 4000 starfsmenn í 30 löndum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Reykjavík.
Alþjóðleg deild innan mannauðssviðs stýrir starfsþróunar- og fræðslumálum miðlægt en með því að fá fræðslustjóra að láni vilja stjórnendur fyrirtækisins greina þarfir þess starfsfólks sem starfar hér á landi og draga upp fræðsluáætlun sem nær til þess hóps.
Á vefsíðu fyrirtækisins um mannauð þess segir eftirfarandi: ,,Við erum meðvituð um mikilvægi endurmenntunar starfsfólks.Til að fyrirtækið geti vaxið, þróast og haldið samkeppnisforskoti sínu í síbreytilegu alþjóðaumhverfi, er mikilvægt að starfsfólk okkar fái tækifæri til að bæta þekkingu sína og færni”
Til að fyrirtækið geti vaxið, þróast og haldið samkeppnisforskoti sínu í síbreytilegu alþjóðaumhverfi, er mikilvægt að starfsfólk okkar fái tækifæri til að bæta þekkingu sína og færni.
Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins.
Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Ráðgjafi verkefnisins er Ragnar Matthíasson hjá RM ráðgjöf.
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550
Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.
Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.
Myndin er fengin að láni af vefsíðu fyrirtækisins