Opinn ársfundur Starfsafls vel sóttur

Í gær, fimmudaginn 4. mai, var haldinn ársfundur Starfsafls á  Vox Club á Hilton Nordica. Í ár var fundurinn opinn öllum áhugasömum og er það í fyrsta sinn sem það er gert.  Boð var sent  á fulltrúa þeirra fyrirtækja sem hafa sótt í sjóðinn sl. ár, þá ráðgjafa sem hafa starfað með sjóðnum og á eigendur sjóðsins og velunnara.  Það var því verulega góð mæting á fundinn og mat manna að fundur af þessu tagi væri vel tímabær. 
 
Dagskrárliðir voru sex talsins og  rúmaðist innan 90 mínútna.  Dagskrá var áhugaverð, þ.m.t. innlegg frá formanni stjórnar sjóðsins, framkvæmdastjóri fór yfir árið auk þess sem sagt var frá verkefnum á sviði fræðslu og veitt innsýn í fræðslu fyrirtækja. 
 
Dagskráin hófst á því að formaður stjórnar Starfsafls, Hlíf Böðvarsdóttir, bauð gesti velkomna.  Hún sagði m.a. að í sínu starfi sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs hefðu endurgreiðslur frá sjóðnum vegna fræðslu verið þess valdandi að hún hefði nánast komið út sem “tekjuliður” í bókhaldi síns vinnustaðar.  Það er óhætt að segja að hennar ummæli hafi sett tóninn fyrir það sem koma skyldi og léttleikinn varð allsráðandi.  
 
Að hennar innleggi loknu  tók Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sjóðins við og fór yfir starfsárið, helstu verkefni og tölur.  Hún kynnti þær áherslubreytingar sem hafa orðið á vinnulagi stjórnar og fór yfir tekju- og útgjaldaliði, en á árinu voru greiddir út styrkir til 80 fyrirtækja, samstals 173 styrkir sem samanlagt taldi 37 milljónir króna.  Þá voru greiddir út á fjórða þúsund styrkir til einstaklinga sem samanlagt var fyrir 154 milljónir króna.  Þá sagði hún 41% styrkja fara til fyrirtækja í ferðaþjónustu.  Hér má nálgast ársskýrslu sjóðsins og til útprentunar hér
 
Næstur á mælendaskrá var Sverrir Hjálmarsson, ráðgjafi hjá Vexti og ráðgjöf, og sagði hann frá  klasaverkefni  Fræðslustjóra að láni sem hann leiddi og Starfsafl ásamt SVS átti hugmyndina að, fjármögnuðu og hrintu í framkvæmd. 
 
Inga G. Birgisdóttir, mannauðsstjóri hjá Mjólkursamsölunni sagði frá sínum vinnustað og því metnaðarfulla starfi sem þar er á sviði fræðslumála.  Nýverið lauk MS verkefninu Fræðslustjóri að láni sem Starfsafl ásamt fleiri sjóðum styrkti og Ragnar Mattíhasson ráðgjafi leiddi.  Hún kynnti verklagið og niðurstöður auk þess sem hún sýndi gestum skráningarform fyrir fræðslu sem hannað var af tölvudeild MS og er ætlað að halda utan um dagskrá og allar skráningar á námskeið.  Mjög áhugavert og ljóst að vandað er til verka.
 
Eva K. Þórðardóttir, starfsmannastjóri Grillhússins, sagði frá því hvernig fræðlsumál hafa fengið aukið vægi á hennar vinnustað og það að hafa fengið inn Fræðslustjóra að láni sem Margrét Reynissdóttir ráðgjafi hjá Gerum betur leiddi,  hefði einfaldað alla vinnu og fjárstyrkur frá Starfsafli og öðrum fræðslusjóðum, hefðu gert það að verkum að metnaðarfull fræðsla inn á vinnustaðnum væri möguleg.
 
Að síðustu sagði Sigríður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Eimskip á Íslandi frá því að mikil hefð væri fyrir öflugu fræðslustarfi á hennar vinnustað og þá væri eigin fræðsla stór hluti fræðslunnar, en Starfsafl hefur m.a. styrkt eigin fræðslu fyrirtækisins sem og endurmenntun atvinnubílstjóra, sem nú er í fullum gangi innan Eimskip og er tilkomin vegna breytingar á lögum.
 
Að loknum erindum var boðið upp á veitingar og var mikið spjallað og ljóst, að opinn fundur af þessu tagi verður endurtekinn að ári liðnu.