Omnom hf fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við fyrirtækið Omnom hf.

Omnom er lítil súkkulaðigerð í Reykjavík sem framleiðir handgert súkkulaði, stofnuð af æskuvinunum Kjartani Gíslasyni og Óskari Þórðarsyni.

Á vefsíðu fyrirtækisins segir að þeir félagar hafi byrjað á þessu sem tilraun eða áskorun til að sjá hvort þeir gætu öðlast skilning á súkkulaði og lært að búa það til. Mjög snemma á tilraunastiginu komust þeir að raun um að súkkulaðigerðin mæltist mjög vel fyrir hjá öllum sem fengu að prófa afrakstur tilraunanna. Innan skamms höfðu þeir sett upp litla framleiðslustöð í gamalli bensínstöð í Reykjavík.

Í dag eru starfsmenn fyrirtækisins 25 talsins.

Að verkefninu koma Starfsafl, Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks og Iðan.

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Ráðgjafi verkefnisins er Eva Karen hjá Effect ráðgjöf en hún hefur tekið nokkur verkefni af þessu tagi fyrir sjóðina enda reyndur ráðgjafi sem býr að víðtækri rekstrarþekkingu.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er hluti af merki (lógó) fyrirtækisins.