Ölgerðin fær Fræðslustjóra að láni
Í dag, miðvikudaginn 14. júní, var undirritaður samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Ölgerðina. Verkefnið er umfangsmikið enda fjöldi starfsmanna um fimmhundruð. Fimm sjóðir koma að verkefninu; SVS, Landsmennt, Iðan og Samband stjórnendafélaga auk Starfsafls, sem leiðir verkefnið.
Styrkupphæð er 1.6 milljón krónur og þar af er hlutur Starfsafls kr. 784.000,-
Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþörf fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Að þessu sinni er það Sverrir Hjálmarsson hjá Vöxtur mannauðsráðgjöf sem er í hlutverki fræðslustjórans.
Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greining og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Ölgerðin er eitt stærsta fyrirtækið á sínu sviði og framleiðir, flytur inn, dreifir og selur matvæli og sérvöru af ýmsum toga. Áhersla er lögð á að vörur fyrirtækisins séu fyrsta flokks og að viðskiptavinir þess geti gengið að hágæða þjónustu vísri. Þá segir á vefsíðu fyrirtækisins að lykillinn að velgengni fyrirtækja er að hluta fólginn í mannauði þeirra. Markmið Ölgerðarinnar er því að hafa yfir að ráða vel menntuðu, hæfu og áhugasömu starfsfólki sem sameiginlega skapar metnaðarfullt og jákvætt vinnuumhverfi. Starfsfólk Ölgerðarinnar stefnir samstíga í átt að framtíðarsýn fyrirtækisins, að verða fyrsta val viðskiptavina og neytenda. Fjölbreyttur bakgrunnur starfsmanna gerir vinnustaðinn skemmtilegan.
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls eða í síma 5107550