Öflugt fræðslustarf innan fyrirtækja

Það er aðdáunarvert hversu mörg fyrirtæki halda úti öflugu fræðslustarfi og fjárfesta á þann hátt í sínu starfsfólki. Til þess þarf tíma, fjármagn og þol, því það getur oft reynst þrautinni þyngri að ná starfsfólki saman án þess að það hafi veruleg áhrif á daglegan rekstur fyrirtækisins.

Í októbermánuði bárust Starfsafli 20 umsóknir frá 11 fyrirtækjum. Heildarupphæð styrkloforða var rétt undir þremur milljónum króna og þar af hefur verið greiddur tæplega helmingur.

5 umsóknir voru vegna eigin fræðslu og var í öllum tilfellum um að ræða endurnýjun samninga. Tvær umsóknir bárust um verkefnið Fræðslustjóri að láni og eru þær báðar í vinnslu og því ekki inn í samtölu styrkloforða.

Þau námskeið sem voru styrkt voru m.a. eftirfarandi:

Skyndihjálp og björgun
Íslenskunámskeið
Brunavarnir og meðferð
Vinnuvélapróf
Kerrupróf
Innra eftirlit í eldhúsum-HACCP
Þjónusta og sala á veitingarhúsum
Þernunámskeið
Grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk
Grooming-útlit og klæðaburður

Fyrirtæki með starfsfólk innan Flóabandalagsins geta sótt til sjóðsins og hvetur Starfsafl fyrirtæki til að hafa samband og kanna hvaða leiðir eru mögulegar. Þá má finna nánari upplýsingar á vef Starfsafls www.starfsafl.is eða í síma 5107550