14 milljónir til á fjórða hundrað einstaklinga

Starfsemi Starfsafls er gríðarlega fjölbreytt og snertifletirnir margir. Til að mynda styrkir Starfsafl ekki eingöngu fræðslu- og starfsmenntamál fyrirtækja heldur styrkir Starfsafl einnig einstaklinga til starfsþróunar. Sá háttur er hinsvegar hafður á að stéttarfélögin sem standa að Starfsafli auk Samtaka atvinnulífsins; Efling stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, sjá um alla umsýslu, þ.m.t. útgreiðslur styrkja til félagsmanna.

Í hverjum mánuði eru greiddar út miljónir króna í styrki til einstaklinga og októbermánuður var þar ekki undanskilinn, en í þeim mánuði voru greiddar tæplega 14 milljónir króna til á fjórða hundrað einstaklinga. Sé litið til samanburðar á milli ára þá er aukning í greiðslu styrkja til einstaklinga um tæp 5%.

Sótt er um styrk vegna ýmissa námskeiða, s.s. tungumála, öku- og vinnuvélaréttinda, svo dæmi séu tekin. Styrkupphæð til starfsmenntunar er að hámarki 75% af kostnaði en aldrei meira en 75.000 kr á ári fyrir félagsmenn með full réttindi. Það munar um minna.

Til að koma til móts við aukinn fjölda erlendra starfsmanna hefur Starfsafl breytt reglum sínum og fá nú fyrirtæki styrk til íslenskukennslu eins og til annarar fræðslu, en áður var þar mikill munur á. Þá geta einstaklingar sótt styrk til íslenskunáms eftir mánuð í starfi en það að tileinka sér tungumálið og aðlagast samfélaginu og atvinnulífinu getur skipt sköpum fyrir bæði einstaklinginn og fyrirtæki hafa ekki síður hag af því.

Reglur Starfsafls vegna einstaklingsstyrkja eru aðgengilegar á www.starfsafl.is og þeir sem óska frekari upplýsinga geta haft samband við viðkomandi stéttarfélag.

Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun. Félagsmenn sem tilheyra Flóabandalaginu og eiga réttindi í starfsmenntasjóðnum telja hátt í 30.000 einstaklinga

Myndin er úr safni