Nýjar reglur – það er allt að gerast
Á fundir stjórnar Starfsafls þann 12. nóvember síðastliðinn voru teknar ákvarðanir um breytingar á reglum samanber eftirfarandi.
Vegna 40.000,- hámarks:
Stjórn Starfsafls hefur samþykkt að afnema 40.000,- kóna þak á hverja kennda klukkustund og nemur styrkur því ávallt 75% af reikningi. Enn sem fyrr greiða rekstraraðilar 25% og þurfa því að vera vakandi yfir verðlagningu á fræðslu til fyrirtækja.
Vegna rafrænnar fræðslu:
Ásíðustu tveimur árum hefur Starfsafl styrkti nokkur fyrirtæki vegna áskriftar að rafrænum námsgrunni. Notuð var sama reikniregla og notuð er vegna aðkeyptrar fræðslu, það er 75% af reikningi fyrir félagsmenn. Skilyrði við styrkveitingu var að skila inn greinagerð þegar ár væri liðið, svo hægt væri að meta árangur og læra af því sem vel fór og því sem betur mætti fara. Það reyndist mjög vel, almennt tókst innleiðing á fræðslu vel og hefur stjórn ákveðið að setja í reglur almenna reglu um rafrænt námsumhverfi.
Vegna salarleigu:
Samþykkt var að styrkja salarleigu í tengslum við námskeiðahald enda hefur það sýnt sig að mörg minni fyrirtæki hafa ekki aðstöðu til að halda námskeið fyrir sitt fólk.
Vegna greiningar á fræðsluþörfum:
Að síðustu hefur verið ákveðið að styrkja vinnu ráðgjafa við þarfagreiningu fræðslu og gerð fræðsluáætlana fyrir þau fyrirtæki sem það kjósa án þess þó að fara í gegnum verkefnið Fræðslustjóra að láni. Útfærslan á því er hinsvegar enn í vinnslu og tekur því ekki gildi fyrr en um áramót.
Aðrar breytingar sem hér að ofan er getið, hafa þegar tekið gildi.
Það er von stjórnar að með þessu geti fyrirtæki enn frekar bætt í og eflt fræðslu til starfsfólks.