Menntaverðlaun atvinnulífsins 2019
Læsi í ýmsum myndum var til umfjöllunar á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu fimmtudaginn 14. febrúar sl. Margt var um manninn og mikil ánægja með þennan viðburð sem hefur svo sannarlega fest sig í sessi í íslensku atvinnulífi.
Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr á sviði fræðslu- og menntamála. Höldur á Akureyri er Menntafyrirtæki ársins og Friðheimar í Bláskógabyggð er Menntasproti ársins. Bæði þessi fyrirtæki hafa fengið Fræðslustjóra að láni og notið styrkja úr starfsmennta- og fræðslusjóðum auk Iðunnar. Í því samhengi má nefna að skipulagt fræðslustarf sem tekur mið af stefnu og markmiðum fyrirtækis auk þarfa starfsfólks skilar árangri og þessar verðskulduðu viðurkenningar undirstrika það.
Menntadagurinn er árlegur viðburður, að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
Upptökur frummælenda eru aðgengilegar á vef Samtaka Atvinnulífsins í Sjónvarpi atvinnulífsins.
Myndirnar eru fengnar að láni af fésbókarsíðu SA.