Marel er menntafyrirtæki ársins
Menntafyrirtæki ársins 2015 er Marel, eitt af framsæknustu fyrirtækjum landsins. Marel er í fararbroddi þegar kemur að menntun og starfsþróun starfsmanna. Lögð er áhersla á markvissa þjálfun og símenntun fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins. Marel tekur þátt í víðtæku samstarfi við menntastofnanir bæði hérlendis og erlendis og stuðlað er að nýsköpun í menntun starfsmanna. Dæmi um slíkt er Framleiðsluskóli Marel fyrir almenna starfsmenn en 30% þeirra sem vinna við framleiðslu hjá Marel á Íslandi hafa ekki lokið formlegu viðurkenndu námi.
Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja landsins og er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi til að hámarka nýtingu, gæði og afköst. Marel var stofnað árið 1983, sprotafyrirtæki sem á uppruna sinn í Háskóla Íslands. Í dag hefur Marel þróast í alþjóðlegt fyrirtæki með 4.000 starfsmenn um allan heim, skrifstofur og dótturfyrirtæki í meira en 30 löndum. Starfsmenn á Íslandi eru 500 þar af 200 sem vinna við framleiðslu.
Upplýsingatækni er nýtt til hins ýtrasta við þjálfun starfsmanna, t.d. með kennsluefni á innra vef fyrirtækisins og Marel rekur eigin sjónvarpsstöð – Marel Live þar sem fundum og námskeiðum er sjónvarpað í beinni útsendingu til allra starfsmanna. Að auki hefur Marel sett upp kennslu- og þjálfunarmiðstöðvar víða um heiminn. Árlega mælir Marel starfsánægju, starfsmannaveltu, ímynd Marel og viðhorf viðskiptavina til fyrirtækisins. Ávinningurinn af öflugri fræðslu og þjálfun er skýr enda vill starfsfólk Marel bæta sig stöðugt og vera best á sínu sviði.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin á menntadegi atvinnulífsins 2015 sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica.Sigríður Þrúður Stefánsdóttir mannauðsstjóri Marel í Garðabæ tók við verðlaununum og sagði við það tilefni:
„Menntaverðlaun atvinnulífsins eru mikilvæg viðurkenning fyrir Marel. Ég er sannfærð um að menntaverðlaun atvinnulífsins munu vera bæði stjórnendum og starfsmönnum Marel mikil hvatning og gefa okkur byr undir báða vængi til að efla enn frekar fræðslu og símenntun og uppbyggingu Marel sem fyrirmyndar og – spennandi valkosts fyrir ungt fólk á íslenskum vinnumarkaði. Þó Marel sé tæknifyrirtæki og framleiði tæki og lausnir til matvælavinnslu þá er það starfsfólkið, sem er okkar helsti auður.“
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni SAF, SFF, SFS, Samorku, SI, SVÞ og SA. Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt í tveimur flokkum, annars vegar er menntafyrirtæki ársins úteft og hins vegar er menntasproti ársins valinn sem að þessu sinni er Síldarvinnslan.
Dómnefnd var skipuð Hildi Elínu Vignir framkvæmdastjóra hjá Iðunni, Steini Loga Björnssyni forstjóra, Ingibjörgu Elsu Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Þorsteini Sigfússyni framkvæmdastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Frá veitingu menntaverðlauna á Menntadegi Samtaka atvinnulífsins, Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, Hildur Elín Vignir, formaður dómnefndar, Sigríður Þrúður Stefánsdóttir, mannauðsstjóri Marel hf.
(Texti og mynd af vef Samtaka atvinnulífsins, www.sa.is )