Malbikunarstöðin Höfða fær Fræðslustjóra
Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Malbikunarstöðina Höfða hf. Þrír sjóðir; Starfsafl, Iðan og Samband stjórnendafélaga koma að verkefninu og greiða hlutfallslega fyrir félagsmenn sinna stéttafélaga.
Hjá Malbikunarstöðinni Höfða starfa rétt um 30 einstaklingar og þar af eru 21 í þeim félögum sem standa að Starfsafli.
Á vefsíðu fyrirtækisins segir að Malbikunarstöðin Höfði hf. sé í eigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og Aflvaka hf. en við stofnun fyrirtækisins á árinu 1996 sameinuðust tvö borgarfyrirtæki Malbikunarstöð- og Grjótnám Reykjavíkurborgar í eitt hlutafélag. Malbikunarstöðin Höfði hf. rekur grjótmulningsstöð og 2 malbikunarstöðvar, leggur út malbik og annast hálkueyðingu og snjómokstur auk þess sem fyrirtækið framleiðir malbik og steinefni. Til að tryggja örugga og varanlega vegi leggur fyrirtækið mikinn metnað í rannsóknir og þróun.
Fyrirtækið er með úrval sérhæfðra starfsmanna sem veita viðskiptavinum faglega ráðgjöf varðandi verkefni og úrbætur fyrir viðskiptavini. Malbikunarstöðin Höfði hf. er framarlega í tækniþróun sem miðar að því að lágmarka mengun og vinnur að umhverfisvænum lausnum. Síðan á fjórða áratug seinustu aldar hefur fyrirtækið lagt malbik á vegi af fagmennsku, sem byggir á reynslu og þekkingu.
Fyrirtækið stendur frammi fyrir því að missa hluta starfsmanna vegna aldurs og vildi gæta þess að dýrmæt þekking færi ekki frá fyrirtækinu, heldur þurfti að fanga þá þekkingu sem lá í þeim mannauð svo hægt væri að koma henni áfram til nýrra starfsmanna auk þess sem huga þurfti að því að formfesta alla fræðslu innan fyirirtækis sem þegar var umtalsverð. Af þeim sökum sótti fyrirtækið um Fræðslustjóra að láni.
Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins.
Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Ráðgjafi verkefnisins er Ragnar Matthíasson hjá RM ráðgjöf.
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550
Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.
Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.
Myndin er fengin að láni af vefsíðu fyrirtækisins