Það má ekki segja nei við kínverja

Það er ekki leiðinlegt að fá flottar konur í heimsókn til að ræða fræðslu- og mannauðsmál en fimm eldhressar konur mættu hingað i Starfsafl  í fyrsta kaffipjall ársins. Þær komu úr fjölbreyttum fyrirtækjum; hótel- og veitingarekstri, fólksflutningum og verslun, en eiga það eitt sameiginlegt að vinna með fræðslu- og mannauðsmál á sínum vinnustað. 

Efst á baugi var umræða um fræðslu sem snýr að núvitund og var sérstaklega rætt um námskeið þar sem þátttakendur nota sýndarveruleikagleraugu til að ná hinni fullkomnu slökun en námskeið af því tagi njóta vinsælda um þessar mundir sem og námskeið sem snúa að sjálfshjálp.  Mjög fróðlegt að hlusta á þá umræðu. 

Þá var einnig var mikið rætt um rafræna fræðslu og allt sem slík fræðsla bíður upp á og var skipst á veigamiklum upplýsingum; hvernig hægt er að búa til myndbönd, hvernig má hvetja til þátttöku og síðast en ekki síst, hvernig fræðsla af þessu tagi er styrkt af Starfsafli. 

Þá var skemmtileg umræða um þjónustu við erlenda ferðamenn og þá sérstaklega kínverska ferðamenn, en það má víst ekki segja nei við þá því  þá hætta þeir að hlusta á allt sem sagt er við þá í framhaldinu.  Frekari skýring fékkst hinsvegar ekki á því en umræðan var skemmtileg. 

Fyrir þá sem ekki þekkja þá felur kaffispjallið það í sér að við bjóðum þeim sem hafa með mannauðs- og fræðslumál að gera, til okkar í morgunkaffi. Þannig getum við hlustað, tekið samtalið, lært og leitað leiða til að mæta þörfum fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra. Þá er ekki síður ávinningur fyrir okkar gesti að koma hingað á skrifstofu Starfsafls, kynnast sjóðnum betur, heyra hvað aðrir eru að gera í sínum mannauðs- og fræðslumálum og vonandi mynda gagnlegar tengingar.

Um er að ræða fámenna morgunfundi, hámark 6 gesti, enga dagskrá en skemmtilegar umræður ef vel tekst til. Við hvetjum sérstaklega þá sem aldrei hafa komið til að kíkja á okkur. 

Næsta kaffispjall er áæltað þann 18. febrúar og er skráning á lisbet@starfsafl.is

Vertu velkomin/n