Loftorka fær Fræðslustjóra að láni

Í gær, fimmtudaginn 30. mars, var undirritaður samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Loftorku Reykjavík ehf, í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Garðabæ.  Að verkefninu kemur einnig Verkstjórasamband Íslands og nemur styrkupphæð um hálfri milljón króna, þar af er hlutur Starfsafls um 350 þúsund krónur.  
 

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþörf fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.  Að þessu sinni er það Vöxtur mannauðsráðgjöf sem er í hlutverki fræðslustjórans.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greining og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins.  Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

 
Fyrirtækið Loftorka Reykjavík ehf er verktakafyrirtæki sem sérhæfir sig í gatna- og vegagerð og er eitt elsta verktakafyrirtæki landsins.  Hjá fyrirtækinu starfa að meðaltali 50-70 starfsmenn og eru flestir þeirra með langan starfsaldur.  
 
Myndin er fengin úr gagnasafni og tengist ekki fyrirtækinu