Kaffispjalli Starfsafls vel tekið

Fyrsta kaffispjalli vetrarins var vel tekið en sjóðnum bárust fjölda pósta þar sem ánægju var lýst yfir með þetta spjall okkar. Við hér á skristofu Starfsafls fögnum því og stefnum að því að hafa kaffispjall reglulega, á meðan áhugi er fyrir því.

Fundinn sóttu fulltrúar fjögurra fyrirtækja og þar af voru þrír sem aldrei hafa mætt áður og eru rétt að byrja að nýta sér það sem sjóðurinn hefur upp á að bjóða. Hámark á fjölda gesta eru 6 gestir en þannig tryggjum við gott samtal þar sem allir fá notið sín.

Umræða þessa fundar var einna helst um rafræna fræðslu og möguleikana þar, en sífellt fleiri fyrirtæki eru að leita leiða til að koma fræðslu á framfæri með skilvirkum hætti án mikils kostnaðar. Þá var verkefnið Fræðslustjóri að láni einnig rætt sem og eigin fræðsla fyrirtækja.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá felur kaffispjallið það í sér að við bjóðum þeim sem hafa með mannauðs- og fræðslumál að gera, til okkar í morgunkaffi. Þannig getum við hlustað, tekið samtalið, lært og leitað leiða til að mæta þörfum fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra. Þá er ekki síður ávinningur fyrir okkar gesti að koma hingað á skrifstofu Starfsafls, kynnast sjóðnum betur, heyra hvað aðrir eru að gera í sínum mannauðs- og fræðslumálum og vonandi mynda gagnlegar tengingar.

Næsti kaffispjall er ekki komið á dagskrá en verður auglýst þegar nær dregur.

Það gleymdist því miður að taka mynd svo ein gömul fylgir fréttinni. 

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband við skrifstofu Starfsafls.