3 H Travel fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við 3H-Travel ehf.

Fyrirtækið starfar undir vörumerkinu Inside the Volcano og  býður upp á skipulagðar ferðir ofan í eldfjall, eins og nafnið ber með sér. Fyrirtækið hefur verið rekið frá árinu 2012 og telur alls 21 starfsmann auk fjölda verktaka sem starfa fyrir fyrirtækið.

Stefna fyrirtækisins í þjónustu er að hvetja og efla starfsfólk til að upplifun gesta verið sem sterkust. Með því að fá Fræðslustjóra að láni vill fyrirtækið hrista upp í þeirri fræðslu sem verið hefur og fá starfsfólkið til að móta sína fræðsluáætlun og innleiðingu á henni.

Tveir sjóðir koma að verkefninu, Starfsafl og SVS. Ráðgjafi verkefnisins er Margrét Reynisdóttir hjá Gerum betur ehf.

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er fengin að láni af veraldarvefnum