Íshestar fá fræðslustjóra að láni
Íshestar hafa skrifað undir samning um að fá Fræðslustjóra að láni. Hjá fyrirtækinu starfa 17 starfsmenn og tilheyra þeir flestir Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks (SVS), en nokkrir tilheyra Starfsafli sem kemur einnig að verkefninu. Mímir símenntun sér um ráðgjöfina í verkefninu, en það er Inga Jóna Þórisdóttir, verkefnastjóri með sérhæfingu í starfsþróun fyrritækja, sem er Fræðslustjóri að láni.
Íshestar er afþreyingarfyrirtæki í ferðaþjónustu og tekur á móti 17-18.000 ferðamönnum yfir árið að viðbættum ungum þátttakendum á reiðnámskeið. Fyrirtækið er með þrískipta starfsemi þar sem boðið er upp á dagsferðir á hestbaki fyrir ferðamenn, en að meðaltali er tekið á móti milli 40 og 50 manns á dag í slíkar ferðir núna í vetur. Einnig er boðið upp á lengri reiðferðir þar sem er innifalin matur og gisting víðsvegar um landið. Í þriðja lagi er ferðaskrifstofan Íshestar Travel sem skipuleggur hópferðir.
Frá undirskrift samninga, f.v. Silja Birgisdóttir og Steinunn Guðbjörnsdóttir frá Íshestum, Inga Jóna Þórisdóttir og Hulda Ólafsdóttir frá Mími og Sólveig Snæbjörnsdóttir frá SVS.