Húsasmiðjan fær Fræðslustjóra að láni
Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Húsasmiðjuna hf.
Húsasmiðjan var stofnuð árið 1956 af Snorra Halldórssyni byggingameistara. Fyrirtækið á því yfir yfir hálfrar aldar langa viðskiptasögu á Íslandi og er í dag eitt af stærstu fyrirtækjum landsins, segir á vefsíðu fyrirtækisins. Árið 2012 var rekstur Húsasmiðjunnar keyptur af danska fjölskyldufyrirtækinu Bygma Gruppen A/S, en Bygma rekur fjölmargar byggingavöruverslanir í Danmörku, Svíþjóð og Færeyjum
Verslanir Húsasmiðjunnar eru sautján og eru Blómavalsútibú í sjö þeirra. Jafnframt er rafiðnaðarverslunin Ískraft með fjögur útibú og heildsalan H.G. Guðjónsson, sem sérhæfir sig í þjónustu við framleiðendur á innréttingum, hluti af Húsasmiðjunni.
Verkefnið nær til á sjötta hundrað starfsmanna um land allt. Fimm sjóðir auk Iðunnar koma að verkefninu og ráðgjafi er Ágústa H. Gústafsdóttir hjá Vexti og Ráðgjöf.
Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.
Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550
Myndin er fengin að láni af veraldarvefnum