How do you like atvinnulífið?
Menntadagur atvinnulífsins fór fram á Hilton Nordica þann 11. febrúar sl. undir yfirskriftinni Störf á tímamótum. Menntadagurinn er sameiginlegt verkefni SA og allra aðildarsamtaka og styrktur af starfsmenntasjóðum atvinnulífsins, þ.m.t. Starfsafli.
Á deginum var 25 ára afmæli starfsmenntasjóðanna fagnað með veglegu myndbandi sem sett hafði verið saman í tilefni tímamótanna, menntaverðlaun atvinnulífsins afhent og staða menntunar rædd við forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur.
Eftir formlega athöfn var gestum boðið að taka þátt í fjölda málstofa og óhætt að segja að úr vöndu var að velja. Ein var sú málstofa sem bar yfirskriftina How do you like atvinnulífið og var hún tileinkuð íslenskunni. Spurt var: Þurfum við öll að kunna íslensku? Ef já hver á þá að kenna okkur íslensku? Hvað er í boði og hver á að borga? Liggur ábyrgðin hjá fyrirtækjum, stjórnvöldum eða starfsfólkinu sjálfu?
Ein var sú málstofa sem bar yfirskriftina How do you like atvinnulífið og var hún tileinkuð íslenskunni.
Jón Gunnar Þórðarson eigandi Bara tala, Vanessa Monika Isenmann, sérfræðingur í íslenskukennslu á vinnustöðum hjá Mími og Fjóla María Lárusdóttir sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fluttu örinnlegg í upphafi málstofunnar og að þeim loknum tók við panell þar sem framkvæmdastjóri Starfsafls, Lísbet Einarsdóttir, var meðal þátttakenda ásamt þeim Nicole Leigh Mostly, sérfræðingi hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, Helgu Fjólu Sæmundsdóttur framkvæmdastjóra mannauðssviðs BM Vallár og Adriönu K. Pétursdóttur, framkvæmdastjóra starfsmannasviðs hjá Rio Tinto
Þurfum við öll að kunna íslensku? Ef já hver á þá að kenna okkur íslensku? Hvað er í boði og hver á að borga? Liggur ábyrgðin hjá fyrirtækjum, stjórnvöldum eða starfsfólkinu sjálfu?
Á málstofunni var farið yfir áskoranir og ávinning þess að efla íslenskukunnáttu meðal starfsfólks og hvort þörf væri á þvi að allir kunna íslensku. Það var mat allra að ekki sé þörf á því að allir kunni íslensku en mikilvægt sé að íslenskunám sé aðgengilegt fyrir alla. Leiðirnar þurfa að vera fjölbreyttar og þannig mæta þörfum ólíkra einstaklinga og ábyrgðin væri allra. Þá kom framkvæmdastjóri Starfsafls inn á mikilvægi þess að greina fræðsluþarfirnar og benti hún á að fjármagn væri ekki hindrun þegar kæmi að íslenskunámi og vísaði hún þar í styrki starfsmenntasjóða til fyrirtækja.
Málstofustjóri var Hildur Bettý Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
Um Starfsafl:
Öll fyrirtæki sem greiða iðgjöld af starfsfólki til Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, geta sótt um í sjóðinn. Sótt er um á www.attin.is
Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband í síma 5181850 eða með tölvupósti á [email protected] Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.
Myndin er fengin að láni af fésbókarsíðu Samtaka atvinnulífsins.