Hin hliðin á innleiðingu á rafrænni fræðslu

Það er fátt eins mikið „in“ í dag hjá fyrirtækjum og það að taka upp rafræna (stafræna) fræðslu. Mannauðs- og fræðslustjórar flykkjast á fundi um efnið, ræða hver við annan, læra hvor af öðrum og skoða þær leiðir sem eru mögulegar. Spurningar eins og „ertu að nota Vyond eða Camtacia, Eloomi eða Articulate, fljúga manna á milli og þeir sem ekki til þekkja verða eitt spurningamerki í framan.

Fjöldi fyrirtækja hefur náð að innleiða fræðslu af þessu tagi með góðum árangri. Einhver tími telst til fórnarkostnaðar þar sem kerfið hefur verið keypt en framleiðsla og kaup á námsefni, innsetning og innleiðing er tímafrekari en gert var ráð fyrir í upphafi. Það er þröskuldur sem þarf að komast yfir en ef einhver ber sannarlega ábyrgð á verkefninu og hefur til þess fullan stuðning yfirstjórnar, tíminn er nægur, verkferlar skilgreindir og tímasettir, þá ætti þetta allt að ganga eins og í sögu.

Starfsafl hefur styrkt áskrift að rafrænu námsumhverfi og nú er svo komið að nokkur fyrirtæki eru að sækja um slíkan styrk þriðja árið í röð. Til þess að fá styrk þarf að sýna fram á hvaða námsefni er boðið upp á og yfirlit yfir notkun, svo sem hversu mikla fræðslu starfsfólk er að fá.
Það eru sannarlega til margar sögur þar sem vel gengur og sem betur fer en það eru líka til sögur þar sem það gengur ekki alveg eins vel, og af þeim er hægt að draga lærdóm.

Auðunn Gunnar Eiríksson, mannauðsstjóri hjá Byko, sagði frá því á menntamorgni atvinnulífsins nýverið hvernig gerð var heiðarleg tilraun til að innleiða rafrænt fræðslukerfi hjá fyrirtækinu.  Vegna fjölmargra þátta sem voru óþekktir eða ófyrirséðir og ekki hafði verið gert ráð fyrir,  var ákveðið að hætta við innleiðingu og hvíla verkefnið, sjá hér á18:16 mín.

Í erindinu varpar Gunnar ljósi á ýmsa þætti sem ef til vill er ekki hugsað út í áður en lagt er af stað, svo sem hvort verkefnastaða þess sem ber ábyrgð á verkefninu gefi rými til þróunar og innleiðingar og því hvort starfsfólk sé að jafnaði við tölvu í vinnutíma eða hvort þurfi gera aðrar ráðstafanir þar að lútandi, svo dæmi séu tekin.

Við hér hjá Starfsafli mælum með því að allir sem eru að huga að rafrænni fræðslu gefi sér tíma til að hlusta á erindi Gunnars, þar kemur margt fram sem hægt er að draga lærdóm af. Hans ráð til þeirra sem eru í þessum hugleiðingum, að innleiða rafrænt fræðslukerfi, er að byrja á því að búa til fræðsluefnið og kaupa síðan kerfið.

Starfsafl styrkir rafræna fræðslu en til að fá styrk hjá Starfsafli þarf að vera til sviðsmynd sem tekur til ýmissa þátta, samanber það sem hér hefur verið ritað. Þá eru reglurnar sem hér segir:

Styrkt er áskrift að rafrænu námsumhverfi um 75% af reikningi en þó aldrei meira en kr. 6000,- fyrir hvern félagsmann á ári. Skilyrt er að gerður sé og greiddur áskriftarsamningur fyrir a.m.k. 6 mánuði.

Með umsókn þarf að fylgja greinagerð sem tekur á eftirfarandi:
1. lýsing á því hvaða fræðslu verður boðið upp á með þessum hætti
2. hvaða fræðsluefni er tilbúið til notkunar
3. hvernig fræðsluefni verður sótt / keypt eða þróað
4. hvernig fyrirtækið hyggst koma fræðslunni á framfæri til starfsmanna
5. hvenær og hvernig starfsfólki er ætlað að nýta fræðsluna

Þá er til viðbótar regla sem tekur til fræðsluefnis og er hún svohljóðandi:

Fyrirtæki geta sótt um hvatastyrk til að gera rafrænt námsefni og er styrkurinn hugsaður fyrir fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref í notkun á rafrænu námsefni. Aðeins er hægt að sækja einu sinni um þann styrk og njóta styrkumsóknir sem stuðla að nýsköpun í menntun félagsmanna ásamt þróunarverkefnum forgangs við styrkveitingu. Í umsókn þarf að koma fram efnisinntak, áætluð framkvæmd og kostnaðaráætlun. Styrkupphæð er ákvörðun stjórnar hverju sinni og aldrei meiri en sem nemur 10-15% af áætluðum kostnaði og að hámarki kr. 250.000,-

Nánari upplýsingar um styrki til fyrirtækja eru veittir á skrifstofu Starfsafls.

* Öll fyrirtæki sem greiða iðgjöld af starfsfólki til Eflingar, VSFK eða Hlífar, geta sótt um í sjóðinn. Hámark veittra styrkja á almanaksári er 3 milljónir króna.