Hæfni-og þarfagreiningu lokið
Í lok síðasta árs tók Starfsafl ásamt Efling, VSFK og Hlíf höndum saman um að ráðast í og fjármagna hæfni- og þarfagreiningu á fræðslu fyrir hópferðabílstjóra. Ástæða þess er breytt starfsumhverfi hópferðabílstjóra og aukinn fjölbreytileiki starfa sem kallar á viðeigandi fræðslu. Óskað var eftir því við Mímir Símenntun, fræðslufyrirtæki á sviði framhaldsfræðslu og starfsmenntunar, að leiða verkefnið og sjá um greininguna.
Leitað var til fyrirtækja um þátttöku í verkefninu og þau fyrirtæki sem sáu sér fært að taka þátt voru Kynnisferðir, Grayline, Ferðaskrifstofa Guðmundar Jónassonar og SBA auk þess sem til staðar voru fulltrúar frá Hlíf stéttafélagi og Starfsafli. Þá lagði Haukur Harðarson frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins verkefninu lið en vinnuna leiddu Auður Loftsdóttir og Anna Kristín Gunnarsdóttir frá Mími. Alls tóku þátt um 15 manns og var þar að finna bæði mannauðs- , fræðslu- og bílstjóra.
Sótt var í aðferðafræði sem Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins hefur á undanförnum misserum verið þróa til að greina hæfnikröfur starfa. Greiningaraðferðin byggir á notkun þrepaskiptra hæfniþátta þar sem búið er að skilgreina á hlutlægan hátt þá persónulegu og faglegu hæfni sem skiptir megin máli á vinnumarkaði. Hæfniþættirnir sem FA byggir greininguna á koma frá kanadísku ráðgjafafyrirtæki, Human Resource Systems Group, en nú nýverið hlaut Mímir símenntun leyfi til að sjá um slíkar greiningar.
Undir lok síðasta mánaðar var vinnu við þarfagreininguna lokið og eftir stendur starfaprófill sem lagður verður til grundvallar við hönnun á námskrá sem síðan verður undirstaða náms eða námshluta fyrir bílstjóra í greinini. Þá standa vonir til þess að hægt verði að ráðast í gerð raunfærnimats fyrir hópferðabílstjóra sem hafa á því áhuga.
Það var samdóma álit þátttakenda að vinnan hefur verið á köflum flókin og kallaði á samstarf manna á milli þegar komast þurfti að samkomulagi um ákveðna þætti og raða eftir mikilvægi. Engu að síður hafi vinnan verið fróðleg, gefandi og skemmtileg.
Starfsafl vill þakka áðurnefndum fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra fyrir þátttökuna, en án þeirra hefði vinnan ekki verið möguleg.