Gagnadrifnar ákvarðanir lykilatriði
Í morgun birtist áhugaverð grein á Vísi undir yfirskriftinni “Tökum gagnadrifnar ákvarðanir þegar kemur að fræðslu og þjálfun í fyrirtækjum og stofnunum,,
Höfundur er Eva Karen Þórðardóttir, eigandi fyrirtækisins Effect, en það fyrirtæki sérhæfir sig í ráðgjöf og þjónustu við fyrirtæki og markmið þess er að að gefa starfsfólki, fyrirtækjum og stofnunum verkfæri til að geta tekið markvissar ákvarðanir varðandi fræðslu og þjálfun og mæla árangur.
Eva er jafnframt ein af þeim ráðgjöfum sem starfa fyrir Starfsafl og fleiri sjóði að verkefninu Fræðslustjóri að láni og námskeiðin hennar um þjónustu eru vel þekkt og vinsæl.
Í greininni fjallar hún meðal annars um framsetningu á fræðslu og veltir því upp með hvaða hætti það er gert og hvort ekki sé mögulega hægt að gera betur:
“Oft er hafist handa með þvi að festa kaup á fræðslukerfi og fræðslupakka sem eru stútfullir af frábæru fræðsluefni og einnig er farið í að skoða hvaða fræðsla og þjálfun þarf að vera skylda fyrir starfsfólk og hvaða fræðsla er meira nice to have. En margir hverjir reka sig á það eftir að allt er loksins komið í gang að starfsfólk er ekki að nýta sér fræðsluna að því marki sem óskað er eftir og þegar enn lengra en liðið eru jafnvel ekki til svör við því hvort þessi fjárfesting sé í raun að skila fyrirtækinu eða stofnuninni aukinni hæfni starfsfólks eða hvort einhver lærdómur hafi í raun átt sér stað,,
Þá ítrekar hún mikilvægi þess að mæla og taka gagnadrifnar ákvarðanir:
“Skoðum hvað við viljum og þurfum að fá út úr fræðslunni fyrir okkar fólk. Tökum mælingar á því hvernig stendur okkar fólk í dag áður en lagt er af stað og tökum ákvarðanir strax í byrjun hvernig ætlum við að mæla árangur og hvernig ætlum við að skapa rými fyrir fólkið okkar að taka þá fræðslu og þjálfun sem það þarf,,
Starfafl tekur heilshugar undir það sem fram kemur í greininni og ítrekar mikilvægi þess að fræðslu -og starfsmenntamál lúti sömu lögmálum og aðrir rekstrartengdir þættir. Að ákvaðarðanataka sé stefnumiðuð og byggi á mælanlegum þáttum. Það þarf að skoða hvaða fræðslu vanti, hvar hún eigi að fara fram, hvenær og hvernig. Þannig er hægt að hámarka árangur allra hlutaðeigandi og margfalda virði þess fjár sem sett er í málaflokkinn.
Greinina í heild sinni má nálgast hér