Gæti raunfærnimat hentað þínu starfsfólki?
Vakin er athygli á því að þriðjudaginn 27. ágúst nk. stendur IÐAN fræðslusetur fyrir kynningarfundi um raunfærnimat. Fundurinn hefst kl. 17.00 og er haldinn í húsnæði IÐUNNAR fræðsluseturs að Vatnagörðum 20 í Reykjavík. Allir eru velkomnir.
Raunfærnimat er leið til að meta til náms þá færni og þekkingu sem öðlast má á vinnumarkaði. Matið getur mögulega stytt nám og verið hvatning til að ljúka því.
Eftirfarandi greinar eru á dagskrá í raunfærnimati hjá IÐUNNI haustið 2019 ef næg þátttaka fæst:
Húsasmíði, málaraiðn og pípulagnir
Rennismíði, stálsmíði, blikksmíði og vélvirkjun/vélstjórn
Framreiðsla
Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati eru 23 ára aldur og 3 ára staðfest starfsreynsla í viðkomandi grein. Þessi leið hefur skilað góðum árangri þar sem margir þátttakendur raunfærnimatsins hafa haldið áfram námi og lokið sveinsprófi að loknu matinu.
Raunfærnimat er unnið í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og er gengið út frá að eðlilegt sé að meta færni sem til staðar er óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Mat á raunfærni byggir á þeirri hugmynd að nám sé verðmætt og að það sé skjalfest óháð því hvar þess hefur verið aflað.
Starfsafl styrkir félagsmenn sem áhuga hafa á að fara í raunfærnimat. Nánari upplýsingar á skrifstofu viðkomandi stéttafélags eða á skrifstofu Starfsafls.
Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.
Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.