Fyrsta kaffispjall vetrarins vel sótt

Fyrsta kaffispjalli vetrarins var vel tekið og fullbókað nánast um leið og auglýsingin fór í loftið.  Við fögnum því og það styrkir okkur enn frekar í því að halda þessa morgunfundi okkar, að minnsta kosti á meðan áhugi er til staðar hjá þeim sem sækja okkur heim.

Fundinn sóttu fulltrúar sex fyrirtækja úr hinum ýmsu greinum; hótel- og veitingarekstri, garðyrkju, byggingaiðnaði og flutningum.

Umræðu þessa fundar var engin takmörk sett og var farið um víðan völl.   Sem fyrr var þó töluvert rætt um rafræna fræðslu og möguleikana þar, en sífellt fleiri fyrirtæki eru að leita leiða til að koma fræðslu á framfæri með skilvirkum hætti án mikils kostnaðar. Ýmsar leiðir voru ræddar og skiptust gestirnir okkar á hugmyndum og deildu reynslu af hinum ýmsu möguleikum, útfærslum og mikilvægi innleiðingar. 

Þá var verkefnið Fræðslustjóri að láni einnig rætt sem og eigin fræðsla fyrirtækja en nýverið breytti Starfsafl reiknireglunni sem tekur til eigin fræðslu, sjá nánar hér. 

Fyrir þá sem ekki þekkja þá felur kaffispjallið það í sér að við bjóðum þeim sem hafa með mannauðs- og fræðslumál að gera, til okkar í morgunkaffi. Þannig getum við hlustað, tekið samtalið, lært og leitað leiða til að mæta þörfum fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra. Þá er ekki síður ávinningur fyrir okkar gesti að koma hingað á skrifstofu Starfsafls, kynnast sjóðnum betur, heyra hvað aðrir eru að gera í sínum mannauðs- og fræðslumálum og vonandi mynda gagnlegar tengingar.

Næsti kaffispjall er ekki komið á dagskrá en verður auglýst þegar nær dregur.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband við skrifstofu Starfsafls.