Framkvæmdastjóri Starfsafls ritar í Hjálm
Í lok hvers árs gefur Verkalýðsfélagið Hlíf út veglegt blað og hefur sú hefð myndast að framkvæmdastjóri Starfsafls, Lísbet Einarsdóttir, riti stuttan pistil eða veiti ritstjóra viðtal.
Að þessu sinni ritaði framkvæmdastjóri pistil sem tók meðal annars til íslenskunáms starfsfólks með annað tungumál en íslensku og einstaklingsnám starfsfólks sem greitt er fyrir af fyrirtæki þess sem viðkomandi starfar hjá.
Réttindaávinnsla fyrirtækis er með allt öðrum hætti en hjá einstaklingum og mikilvægt að fyrirtæki þekki þann mun og með það í huga styðji fjárhagslega við það nám sem starfsfólk sækir hvort heldur er á vinnutíma eða á eigin tíma.
Um íslenskunám segir meðal annars:
,,Hátt í helmingur félagsmanna er til dæmis með annað tungumál en íslensku sem sitt móðurmál og því eru íslenskunámskeið mjög vinsæl og frábært að sjá hversu mörg fyrirtæki fjárfesta í sínu starfsfólki með því að bjóða upp á íslenskunám á vinnustað og eða greiða fyrir það starfsfólk sem kýs að fara á íslenskunámskeið utan vinnutíma. Það er svo gríðarlega mikilvægt og hluti af því að aðlagast samfélaginu”
Íslenskunám mikilvægur þáttur í því að aðlagast samfélaginu
Um tímabundið ráðið starfsfólk segir:
,,Þá má ekki gleyma tímabundið ráðnu starfsfólki, starfsfólki sem kemur ínn í sumarafleysingar eða hlutastörf til lengri tíma eða skemmri tíma. Í mörgum tilvikum er um að ræða ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Oft vantar upp á reynslu og hæfni og þá er ánægjulegt að fjöldi fyrirtækja sér hag í þvi að greiða fyrir starfsfólk ýmisskonar nám sem veitir réttindi, svo sem á vinnuvélar, sem þeir einstaklingar taka með sér áfram og geta nýtt í framtíðarstörfum”
Ánægjulegt að fjöldi fyrirtækja sér hag í þvi að greiða fyrir starfsfólk ýmisskonar nám sem veitir réttindi sem þeir einstaklingar taka með sér áfram og geta nýtt í framtíðarstörfum.
,,Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að einstaklingur sem ekki er í fullu starfi, til að mynda nemi sem vinnur með skóla, er ansi lengi að vinna sér inn fullan rétt hjá sjóðnum og nær líklega ekki að eiga fullann rétt eftir 3 ár í starfi en fullur réttur er 390.000,- kr. en þó aldrei meira en 90% af reikningi. Hinsvegar öðlast fyrirtæki fullan rétt, það er styrk upp á 300.000,- en þó aldrei meira en 90% af reikningi, fyrir starfsmann um leið og ráðningarsamningur er undirritaður og þá skiptir engu hvort viðkomandi er í fullu starfi eða tímabundnu. Það er því mikill ávinningur fyrir það starfsfólk ef fyrirtæki fjárfestir í þeim með þeim hætti að greiða starfstengt nám sem sannarlega nýtast inn í framtíðarstörf”
Viðtalið og blaðið í heild sinni má lesa hér