Fræðslustjóri að láni til Vífilfells

Í lok júní var undirritaður samningur milli fjögurra fræðslusjóða atvinnulífsins og Vífilfells um fræðslustjóra að láni sem sjóðirnir kosta.  Vífilfell stendur frammi fyrir ýmsum breytingum á skipulagi fyrirtækisins sem verður spennandi að fylgjast með.  Fræðslustjóranum er ætlað að aðstoða mannauðsstjóra fyrirtækisins við að kortleggja hæfni og þjálfunarþörf starfsmanna fyrirtæksins á tímum örra breytinga. Árný Elíasdóttir frá Attentus er fræðslustjóri að láni.

Vífilfell hf og kók þarf ekki að kynna fyrir íslendingum. Vífilfell er líka öflugt í framleiðslu og innflutningi á ýmsum drykkjarvörum.

Á árum síðari heimstyrjaldarinnar gerði Björn Ólafsson, stórkaupmaður, samning við The Coca-Cola Company um stofnun verksmiðju á Íslandi, og 1. júní 1942 tók verksmiðjan Vífilfell til starfa að Haga við Hofsvallagötu í Reykjavík, sem einkaframleiðandi Coca-Cola á Íslandi. Í fyrstu voru starfsmenn 14 og framleiðslan 12.000 flöskur á dag. Árið 1973 urðu tímamót er framleiðslan flutti í nýtt og stærra húsnæði að Stuðlahálsi 1. Nýja verksmiðjan að Stuðlahálsi var búin nýtísku vélum sem gátu framleitt allt að 140.000 flöskur á dagvakt. Mestu breytingar í langan tíma áttu sér stað sumarið 1985 en þá hófst áfylling á 1,5ltr. plastflöskum. Neytendur tóku þessari nýjung mjög vel og fljótlega hvarf “risinn” af sjónvarsviðinu en í staðinn bættust 0,5 og 2 ltr. plasflöskurnar í hópinn. Í dag eru plastflöskurnar langvinsælustu umbúðirnar.
Í dag vinna í fyrirtækinu um 250 manns og er greitt af 63 Eflingarfélögum til Starfsafls. Aðrir sjóðir sem taka þátt í verkefninu eru Landsmennt, Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks (SVS) og Menntasjóður SA og Verkstjórasambands Íslands.
IMG_8891
Frá undirskrift samnings, f.v. Steinunn Eva Björnsdóttir, starfsþróunarstjóri, Árný Elíasdóttir, fræðslustjóri að láni, Kristín Njálsdóttir, Landsmennt, Sveinn Aðalsteinsson, Starfsafli, Skúli Sigurðsson, forseti VSSÍ, Selma Kristjánsdóttir, SVS og Carlos Cruz, forstjóri Vífilfells hf.