Áherslur í starfsemi sjóðsins slá í takt við atvinnulífið og þarfir þeirra sem starfa á almenna markaðnum, hjá fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum. Með sífelldri hlustun og virkri þátttöku á vettvangi mannauðs- og fræðslumála, er hægt að mæta þeim þörfum.
Eitt af meginmarkmiðum Starfsafls er að styðja fyrirtæki og starfsfólk þeirra í því að efla hæfni, öryggi og tækifæri á vinnumarkaði – óháð lífaldri, starfsaldri eða ráðningartíma. Það er því mikilvægt að fyrirtæki geri allt starfsfólk, þar með talið sumarstarfsfólk og þá sem eru tímabundið ráðnir, að virkum þátttakendum í fræðslu sem getur leitt til áunninna réttinda og annarrar viðurkenndrar hæfni á vinnumarkaði.
Aukin áhersla á stafrænt fræðsluumhverfi sem og aðgengi að stafrænni fræðslu er fagnaðarefni og mikilvæg þróun í fræðslumálum.
Aukin áhersla á stafrænt fræðsluumhverfi sem og aðgengi að stafrænni fræðslu er fagnaðarefni og mikilvæg þróun í fræðslumálum. Þó ber að hafa í huga að slíkt umhverfi tryggir ekki sjálfkrafa þátttöku í fræðslu heldur opnar aðgengi að fræðslu. “Að hafa er ekki það sama og að nota” Því er mikilvægt að fyrirtæki séu með skýra fræðslustefnu og miðli henni markvisst til starfsfólks. Stefna og sýn tryggja að fræðsla styðji við markmið og rekstur fyrirtækisins og að allt starfsfólk hafi raunverulegt tækifæri til að nýta sér þau tækifæri og þann stuðning sem í boði er.
54% starfsfólks hefur áhyggjur af því að missa vinnuna á næstu 5 árum vegna þess að það skortir uppfærða hæfni samvkæmt könnun sem gerð var meðal 12.000 starfandi einstaklinga frá 27 löndum, þar af hafa 17% mjög miklar áhyggjur.
54% starfsfólks hefur áhyggjur af því að missa vinnuna á næstu 5 árum vegna þess að það skortir uppfærða hæfni samvkæmt könnun sem gerð var meðal 12.000 starfandi einstaklinga frá 27 löndum, þar af hafa 17% mjög miklar áhyggjur. Tveir þriðju fullorðinna segjast geta lært og þróað færni sem þarf fyrir störf framtíðarinnar hjá núverandi vinnuveitanda, 23 % mjög færir til þess og 44% nokkkuð færir.
Að þessu sögðu er það ánægjulegt að sjá hve mörg fyrirtæki hér á landi sækja um styrki vegna náms sem veitir starfsfólki þeirra starfsréttindi, hvort sem um ræðir réttindi á allar gerðir vinnuvéla, endurmenntun atvinnubílstjóra, gæðastjórnunar eða sértækarar hæfniþjálfunar, réttindi sem starfsfólkið tekur mögulega með sér til annarra starfa. Einnig er jákvætt að vaxandi fjöldi fyrirtækja fjárfestir í hæfni starfsfólks á sviðum eins og samskiptum, tímastjórnun og sjálfsstyrkingu. Allt eru þetta mikilvægir þættir sem stuðla að meiri fagmennsku, vellíðan og framþróun í starfi.
Starfsafli mun áfram styðja fyrirtæki í því að byggja upp fræðslumenningu þar sem öllu starfsfólki er gert kleift að sækja sér færni sem nýtist, ekki aðeins fyrirtækinu heldur líka einstaklingnum í og fyrir áframhaldandi starfsþróun.
Styrkir til einstaklinga eru jafnframt veigamikill þáttur í starfsemi Starfsafls. Fjöldi félagsmanna sækir um námsstyrki og nýtir þannig rétt sinn til að efla sig og auka framtíðarmöguleika sína, styðja við nám og starfsþróun.
Ungt fólk hefur sérstaklega nýtt sér rétt sinn til einstaklingsstyrkja, það er einstaklingar í námi sem starfa yfir sumartímann og afla sér þannig réttinda í sjóðinn og nýta þau síðar til að standa straum af kostnaði vegna skólagjalda. Fyrir þennan hóp getur slíkur fjárhagslegur stuðningur skipt verulegu máli og jafnvel verið það sem gerir þeim kleift að hefja eða halda áfram í námi.
Það er mikilvægt að hvetja einstaklinga til að axla ábyrgð á eigin starfsþróun alla starfsæfina. Að vera virkur þátttakandi í eigin færniuppbyggingu er lykill að því að viðhalda hæfni, auka tækifæri og mæta breyttum kröfum vinnumarkaðarins. Þeir sem halda vöku sinni og nýta þau úrræði sem í boði eru, svo sem styrki úr fræðslusjóðum eru betur í stakk búnir til að aðlagast, þróast og nýta hæfileika sína til fulls. Starfsþróun er ekki aðeins á ábyrgð vinnuveitenda heldur einnig einstaklinga sjálfra. Það að „sofa ekki á verðinum“ getur skipt sköpum fyrir vellíðan í lífi og starfi.
Árskýrslu Starfsafls fyrir árið 2024 má nálgast á vefsíðu sjóðsins, undir gagnasafn.