Fjölmenni á fundi Áttarinnar
Í morgun var haldinn morgunverðarfundur í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35. Fundurinn er hluti af fundaröðinni Menntun og mannauður 2015-2016. Á fundinum var Áttin kynnt en hún er ný vefgátt sem greiðir leið fyrirtækja að umsóknum að starfsmenntassjóðum og fræðslustofnunum. Áttin er sameiginlegt verkefni atvinnurekenda og launafólks á almennum vinnumarkaði. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir frá SA og Sveinn Aðalsteinsson, verkefnisstjóri Áttarinnar voru með framsögu á fundinum.
Fyrirtæki þar sem starfsmannahópurinn er fjölbreyttur og greitt er af í mismunandi stéttarfélög, hafa hingað til þurft að sækja til margra sjóða og fræðslustofnana um styrki. Þau eiga héðan í frá að geta sótt um styrki fyrir nær allt sitt fólk með aðeins einni umsókn. Gert er ráð fyrir að Áttin opni formlega um mánaðamótin okt/nóv og í framhaldinu verður farið í fundaherferð og fjölmiðlakynningu.
Fundarmenn lýstu yfir ánægju sinni með tilurð Áttarinnar og því kynningarstarfi sem framundan er. Um 70 manns sóttu fundinn.
Sveinn Aðalsteinsson, verkefnisstjóri Áttarinnar kynnir vefgáttina. Mynd: Starfsafl Fjölmenni var á fundinum. Mynd: Starfsafl