Þú getur fjárfest í sumarstarfsfólkinu

Með sumrinu kemur sumarstarfsfólkið inn á vinnustaðina og í mörgum tilvikum er um að ræða ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Oft vantar upp á reynslu, þekkingu og réttindi og þá er ánægjulegt að segja frá því að fyrirtæki geta á fyrsta mánuði einstaklings í starfi sótt um styrk vegna þess einstaklings og fengið 90% endurgreiðslu á reikning eða að hámarki 300.000,-  

Það ætti því ekki að vera nein hindrun að ráða inn unga fólkið okkar heldur hvati og góð fjárfesting, því mögulega koma þeir einstaklingar aftur til starfa síðar. 

Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að einstaklingur sem ekki er í fullu starfi, til að mynda nemi sem vinnur með skóla, er ansi lengi að vinna sér inn fullan rétt hjá sjóðnum ef og nær líklega ekki að eiga fullann rétt eftir 3 ár í starfi en fullur réttur er  390.000,- kr. en þó aldrei meira en 90% af reikningi.  Hinsvegar öðlast fyrirtæki fullan rétt, það er styrk upp á 300.000,- en þó aldrei meira en 90% af reikningi, fyrir starfsmann um leið og ráðningarsamningur er undirritaður og þá skiptir engu hvort viðkomandi er í fullu starfi eða tímabundnu.  Það er því mikill ávinningur fyrir það starfsfólk ef fyrirtæki fjárfestir í þeim með þeim hætti að greiða starfstengt nám sem sannarlega nýtast inn í framtíðarstörf. 

Það er því mikill ávinningur fyrir það starfsfólk ef fyrirtæki fjárfestir í þeim með þeim hætti að greiða starfstengt nám sem sannarlega nýtast inn í framtíðarstörf. 

Að síðustu má benda á að þörfin fyrir fræðslu og markvissa starfsþróun er sérlega mikilvæg fyrir einstaklinga með litla formlega starfsreynslu og litla grunnfærni enda sá hópur sem er viðkvæmari fyrir breytingum á vinnumarkaði eins og þær sem eiga sér stað núna.  Mikilvægt er að þeir hópar sitji ekki eftir þegar kemur að þjálfun starfsfólks og því hvetjum við fyrirtæki til horfa til þessa hóps og sjá hvar má gera betur. 

Fjöldi fyrirtækja sér hag í þvi að greiða fyrir sitt sumarstarfsfólk allskonar vinnuvélanám sem veitir réttindi sem þeir einstaklingar taka með sér áfram og geta nýtt í framtíðarstörfum.

Þá eru ótalin önnur námskeið sem fyrirtæki bjóða upp á og eru góður grunnur fyrir öll framtíðarstörf, svo sem námskeið sem taka til vinnuverndar, gæðastjórnunar og samskipta, svo fátt eitt sé talið. Að sjálfsögðu er síðan hægt að sækja um styrk sem felur í sér endurgreiðslu á kostnaði til Starfsafls og nýta þannig sinn rétt hjá sjóðnum, sem myndast sjálfkrafa um leið og launatengd gjöld hafa verið greidd.

Athugið að viðkomandi þarf að vera komin á launaskrá þegar námið er sótt, námið þarf að vera starfstengt og hægt er að sækja um styrk þegar skilagreinar hafa verið sendar inn og iðgjöld greidd.

Ekki hika við að senda okkur línu ef þig langar að vita meira um það hvernig þú getur stutt við þitt starfsfólk.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband í síma 6930097 eða með tölvupósti á lisbet@starfsafl.is 

Um Starfsafl:

Starfsafl fræðslusjóður er starfsmenntasjóður Samtaka atvinnulífsins og Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.

Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.

Myndin með fréttinni er fengin hér