Endurmenntun bílstjóra hjá Ölgerðinni
Ölgerðin heldur úti virkri fræðslustefnu, byggða á greiningu sem fengin var m.a. með verkefninu Fræðslustjóri að láni, og með víðtækri fræðsluáætlun sem nær til allra starfsmanna er öflugu fræðslustarfi viðhaldið, þ.m.t. er endurmenntun atvinnubílstjóra.
Á dögunum sóttu atvinnubílstjórar hjá Ölgerðinni endurmenntunarnámskeið hjá Framvegis símenntunarmiðstöð. Alls voru það 23 bílstjórar, þar af 13 sem teljast til félagsmanna Eflingar, sem sátu tvo námskeiðshluta, annarsvegar um vistakstur og hinsvegar vöruflutninga, sbr. gildandi námsskrá.
Starfsafl styrkir endurmenntun atvinnubílstjóra eins og aðra starfstengda fræðslu og var styrkur Starfsafls til Ölgerðarinnar vegna 13 starfsmanna 75% af reikningi eða kr. 311.850,- Það munar um minna og styrkur af þessu tagi gerir fyrirtækjum það auðveldara að mæta fræðsluþörfum starfsfólks samhliða stefnu fyrirtækis og kröfum atvinnulífs.
Ölgerðin er eitt stærsta fyrirtækið á sínu sviði og framleiðir, flytur inn, dreifir og selur matvæli og sérvöru af ýmsum toga. Áhersla er lögð á að vörur fyrirtækisins séu fyrsta flokks og að viðskiptavinir þess geti gengið að hágæða þjónustu vísri. Þá segir á vefsíðu fyrirtækisins að lykillinn að velgengni fyrirtækja er að hluta fólginn í mannauði þeirra. Markmið Ölgerðarinnar er því að hafa yfir að ráða vel menntuðu, hæfu og áhugasömu starfsfólki sem sameiginlega skapar metnaðarfullt og jákvætt vinnuumhverfi. Öflug fræðslustefna endurspeglar sannarlega þessi markmið.
Alls eru það fimm námskeiðshlutar sem falla undir endurmenntunarþáttinn sbr. lög þar um og þar segir m.a. að þeir bílstjórar sem fengið hafa réttindi sín fyrir 10. september 2013 þurfa að klára endurmenntun fyrir 10. september 2018. Það er því brýnt fyrir fyrirtæki að huga að þessum þætti en nánari upplýsingar má finna hér
Framvegis er meðal fjölmargra fræðsluaðila sem bjóða upp á endurmenntunarnámskeiðin en aðrir eru t.d. Keilir, Iðan fræðslusetur og fl. Lista yfir fræðsluaðila má sjá hér
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni og styrki til fyrirtækja má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550
Starfsafl fræðslusjóður var stofnaður á grundvelli kjarasamninga árið 2000. Sjóðurinn er í eigu Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Flóabandalagsins (þ.e. Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélagas Keflavíkur og nágrennis) hins vegar.