Fræðslumál hjá CenterHotels á ársfundi
Á ársfundi Starfsafls þann 9. maí næstkomandi mun Eir Arnbjarnardóttir, mannauðsstjóri hjá CenterHotels veita innsýn í fræðslumál fyrirtækisins.
Eir er mannauðsstjóri hjá CenterHotels. Hún lauk námi frá Háskólanum í Reykjavík 2017 í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði. Eir hóf störf fyrst hjá CenterHotels 2011 og hefur starfað í hótelbransanum síðan, samhliða háskólanámi. Árið 2017 tók hún svo við starfi mannauðsstjóra.
CenterHotels er fjölskyldurekin hótelkeðja í eigu hjónanna Kristófers Oliverssonar og Svanfríðar Jónsdóttur, sem samanstendur af sex hótelum og þremur veitingastöðum í miðborg Reykjavíkur. Stefnt er að opnun tveggja hótela til viðbótar á næstu tveim árum.
Hjá CenterHotels starfa um 280 starfsmenn og samanstendur teymið af 29 þjóðernum. CenterHotels leggur mikla áherslu á þjálfun starfsmanna í öllum deildum, bæði til að tryggja gæða þjónustu til gesta og til að efla starfsmenn í starfi. Mikið er lagt upp úr því að veita starfsmönnum tækifæri til að þróast í starfi og erum við stolt af þeirri starfsþróun sem hefur átt sér stað innanhúss. CenterHotels var fyrsta hótelið á Íslandi til að hljóta jafnlaunavottun.
Fyrirtækið hefur unnið stefnumiðað að fræðslu innan fyrirtækisins og fékk til að mynda Fræðslustjóra að láni árið 2013. Það verður því áhugavert að heyra hvernig málum er háttað hjá fyrirtækinu og án efa hægt að læra heilmikið á þeirra nálgun.