Eigin fræðsla fyrirtækja borgar sig

Í tæpan áratug hefur Starfsafl styrkt eigin fræðslu fyrirtækja, fræðslu sem fram fer innan fyrirtækjanna með aðstoð eigin starfsmanna í hlutverki leiðbeinanda. Í  öllum tilvikum er um að ræða sértæka fræðslu sem ekki er hægt að kaupa frá sjálfstæðum fræðsluaðilum. Má þar nefna þjálfun samkvæmt tilteknum þjálfunarferlum almennra starfsmanna t.d. í þjónustu og framleiðslu sérhæfðra vara.

Fjölmörg fyrirtæki hafa nýtt sér þessa leið og má þar meðal annars nefna fyrirtækið Garðlist. Stjórnendur þess fyrirtækis hafa sótt töluvert í sjóðinn vegna eigin fræðslu fyrirtækisins en þar eru markmið skýr hvað fræðslu varðar. Þar af leiðandi er mikið lagt í fræðslu starfsfólks en hjá fyrirtækinu starfar mikið af ungu fólki, allt frá 16 ára aldri. Því er lögð mikil áhersla á góða kennslu strax í byrjun, svo sem fræðslu sem snýr almennt að garðvinnu og telst til eigin fræðslu fyrirtækisins auk þess sem starfsfólk fer á nauðsynleg vinnuvélanámskeið og þá er um að ræða aðkeypt námskeið.

Það sem af er árinu hefur fyrirtækið sótt tæplega þrjátíu sinnum í sjóðinn og fengið samtals 1.5 milljón í styrki vegna fræðslu starfsfólks.  Þar af er þriðjungur styrkfjárhæðar vegna eigin fræðslu fyrirtækisins. 

Fyrirtækið sérhæfir sig í þjónustu tengt garðvinnu og skreytingum fyrir stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga. Það á sér skemmtilega forsögu en eigandi þess, Brynjar Kjærnested stofnaði það ungur að árum. Það var árið 1989 og hann þá aðeins 12 ára gamall. “Það var þannig að mér var sagt upp í unglingavinnunni og var eiginlega atvinnulaus 12 ára, þá ákvað ég að stofna eigið fyrirtæki og keppa við unglingavinnuna. Ég fór niður í Þór og keypti mér sláttuvél og orf. Pabbi skutlaði mér niður eftir. Svo fór ég að ganga um hverfið og bjóða garðslátt og fékk mjög góðar viðtökur.” (sjá hér). 

Hjá fyrirtækinu starfar fjöldi einstaklinga, yfir veturinn er starfsfólk um 40 talsins en fjölgar töluvert þegar vorar og telur þá um 120 manns fram til haustsins.  Aldur starfsfólks er á bilinu 16 til 60 ára. 

Öll fyrirtæki  geta sótt um styrk vegna eigin fræðslu fyrirtækja en skilyrt er, eins og segir í inngangsorðum, að fræðslan sé sértæk. Undirritað samkomulag er skilyrði fyrir því að fyrirtæki geti sótt um í sjóðinn vegna eigin fræðslu og fyrirtæki sem ekki hafa undirritað slíkt samkomulag þurfa að hafa samband við skrifstofu Starfsafls áður en lögð er inn umsókn í fyrsta sinn.  Fyrirtæki sem hafa undirritað samkomulag sækja um styrk á áttinni eins og um aðkeypta fræðslu sé að ræða.

Hér má lesa nánar um þær reglur sem gilda um eigin fræðslu fyrirtækja.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband í síma 6930097 eða með tölvupósti á [email protected]

Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.

Öll fyrirtæki sem greiða iðgjöld af starfsfólki til Eflingar, VSFK eða Hlífar, geta sótt um í sjóðinn. Hámark veittra styrkja á almanaksári er 3 milljónir króna.

Myndin með fréttinni er fengin hér