Colas Ísland hf fær Fræðslustjóra að láni
Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við fyrirtækið Colas Ísland hf. Fjórir sjóðir; Starfsafl, Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks. Landsmennt og sjóður Sambands stjórnendafélaga koma að verkefninu og greiða hlutfallslega fyrir félagsmenn sinna stéttafélaga.
Hjá Colas Ísland hf starfa 77 starfsmenn og þar af eru 45% í þeim félögum sem standa að Starfsafli. Colas Ísland hf er staðsett í Hafnarfirði en tekur að sér verkefni um allt land. Á vefsíðu fyrirtækisins segir að það bjóði upp á fyrsta flokks þjónustu varðandi allt sem við kemur malbikun og gatnaframkvæmdum almennt. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á að aðstoða viðskiptavini og veita þeim faglega ráðgjöf varðandi verkefni og úrbætur, hvort sem það er fyrir einstaklinga, húsfélög, fyrirtæki, verktaka eða sveitarfélög. Þá segir í umsókn fyrirtækisins til sjóðsins að stefna og framtíðarsýn fyrirtækisins sé ljós og að fyrirtæki stefni ávallt að því að bæta sig.
Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins.
Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Ráðgjafi verkefnisins er Ragnar Matthíasson hjá RM ráðgjöf.
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550
Myndin er fengin að láni af vefsíðu fyrirtækisins