Brim fær fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við fiskvinnslufyrirtækið Brim. Brim stundar veiðar og vinnslu á botn- og uppsjávarfiski og hjá fyrirtækinu eru unnin um 800 ársverk til sjós og lands. Afurðirnar eru seldar um allan heim en helstu markaðir eru í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku og Afríku. 

Fimm sjóðir koma að verkefninu og greiða þeir hlutfallslega fyrir félagsmenn sinna stéttafélaga.  Starfsafl er leiðandi sjóður verkefnisins. 

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Stjórnendur fyrirtækisins vilja með verkefninu setja fræðslu fyrirtækisins í fastar skorður og fjárfesta þannig enn frekar í mannauð fyrirtækisins.

Ráðgjafi verkefnisins er Ragnar Matthíasson hjá RM ráðgjöf.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er fengin að láni af vefsíðu fyrirtækisins.