Bók um fræðslustjóraverkefnið komin út

Út er komin handbókin “Árangursrík fræðsla og þjálfun” sem er afrakstur Leonardo Evrópuverkefnis sem Starfsafl stýrði 2011-2013.  Bókin kemur út á fjórum tungumálum, íslensku, ensku, þýsku og spænsku.
Verkefnið Fræðslustjóri að láni er fjölþjóðlegt verkefni sem styrkt er sameiginlega af Leonardo Menntaáætlun Evrópusambandsins og fjórum evrópskum þátttakendum, m.a. tveimur íslenskum aðilum, Starfsafl og Attentus – mannauður og ráðgjöf ehf. Fræðslustjórinn í skilningi verkefnisins er mannauðsráðgjafi sem greinir þarfir fyrir þjálfun/fræðslu innan fyrirtækisins og hannar í kjölfarið sérsniðna fræðslu- og námsáætlun. Markmið verkefnisins er að kynna fyrir öðrum Evrópulöndum íslenska verkefnið „Fræðslustjóri að láni“ og hagnýtingu þess á Íslandi í nokkur ár. Íslenska verkefninu hefur verið vel tekið meðal fyrirtækja og reynst afar vel.
Í handbókinni er að finna upplýsingar og ítarefni um fræðilega og hagnýta nálgun að stefnumiðaðri (e. strategic) þjálfun og starfsþróun. Handbókin er ætluð fræðslustjórum og mannauðsráðgjöfum. Gerð er grein fyrir þeim áskorunum sem fyrirtæki standa frammi fyrir í dag, við að bæta skilvirkni fyrirtækja og auka samkeppnisforskot með því að fjárfesta í mannauði sínum. Handbókin inniheldur útskýringar, dæmi, verkfæri og sniðmát svo hún megi gagnast sem hagnýtt tæki við greiningu, skipulag og mat þjálfunar og fræðslu.
Bókin er sú fyrsta á markaði hérlendis á íslensku sem fjallar um þjálfun og fræðslu á vinnustað.
Nánar verður skýrt frá síðar hvar nálgast má bókina.
relevant_training_is_370

 

Forsíða íslensku útgáfunnar