Ein milljón króna í styrk vegna endurmenntunar
Í liðinni viku var greiddur rúmlega einnar milljón króna styrkur til BM Vallá vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra og hafa þá verið greiddar tæpar 5 milljónir króna til fyrirtækja vegna fræðslu atvinnubílstjóra þetta árið, þar með talið endurmenntunar. Um lögboðna fræðslu er að ræða og þurfa atvinnubílstjórar að sækja sér hana ef þeir ætla að halda réttindum sínum. Það er því mikið í húfi fyrir alla hlutaðeigandi.
Starfsafl styrkir endurmenntun atvinnubílstjóra eins og aðra starfstengda fræðslu og var styrkur Starfsafls til fyrirtækisins rúm ein milljón króna eins og áður segir eða 75% af reikningi fyrir félagsmenn Eflingar.
Það munar um minna og styrkur af þessu tagi gerir fyrirtækjum það auðveldara að mæta lögboðini fræðslu sem og almennri fræðsluþörf starfsfólks samhliða stefnu fyrirtækis og kröfum atvinnulífs.
Alls eru það fimm námskeiðshlutar sem falla undir endurmenntunarþáttinn sbr. lög þar um en nánari upplýsingar má finna hér en sótt var um styrk vegna allra fimm námskeiðshlutanna fyrir næstum alla bílstjórana.
Framvegis, Miðstöð símenntunar, sá um fræðsluna fyrir BM Válla en lista yfir fræðsluaðila sem taka að sér endurmenntun atvinnubílstjóra má sjá hér
BM Vallá var stofnað árið 1956 af Benedikti Magnússyni frá Vallá á Kjalarnesi. Fyrirtækið og félög sem sameinast hafa fyirtækinu hafa um langt árabil verið í fararbroddi íslenskra iðnfyrirtækja og gegnt forystuhlutverki í þjónustu við íslenskan byggingamarkað, hvert á sínu sviði, segir á vefsíðu fyrirtækisins. Í dag rekur BM Vallá fjölbreytta starfsemi víða um land en að stærstum hluta fer starfsemin fram í Reykjavík.
Skrifstofa Starfsafls veitir frekari upplýsingar um styrki til fyrirtækja og þær reglur sem þar gilda.
Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.
Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.