Bílaleigan Geysir fær Fræðslustjóra að láni
Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Bílaleiguna Geysir ehf.
Bílaleigan er elsta bílaleigan í Reykjanesbæ, fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 1973. Reksturinn hefur verið í núverandi mynd frá árinu 2003 og fjöldi starfsmanna er vel á fimmta tug. Fyrirtækið er með gæðavottun Vakans og með verkefninu er verið að formfesta fræðslu starfsmanna og móta stefnu til næstu ára sem tekur mið af þörfum stjórnenda og starfsfólks samhliða stefnu fyrirtækisins.
Tveir sjóðir styrkja verkefnið, Starfsafl sem jafnframt leiðir verkefnið og SVS.
Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Miðstöð símenntunar á suðurnesjum sér um hlut ráðgjafans að þessu sinni og notar við það Markviss aðferðina.
Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550