Base hótel fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Base Hótel, Reykjanesbæ.

Starfsmenn fyrirtækisins eru tæplega eru 23 talsins og er verkefnið að fullu styrkt af Starfsafli og SVS.

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Base hótel hefur verið starfrækt í rúm tvö ár og er staðsett í á gamla varnarliðssvæðinu. Hótelið telur 121 herbergi og bar. Nafn hótelsins vísar til þess tímabils þegar bandaríski herinn hafði aðsetur á sama stað og er hótelið m.a. málað í felulitum.

Stjórnendur telja brýnt að koma fræðslu starfsfólks í markvissan farveg og hafa þ.a.l. óskað eftir Fræðslustjóra að láni. Í umsókn fyrirtækisins segir að sú staða sé komin upp að þörf sé á að færa starfsemina fram á við og auka gæði gagnvart viðskiptavinum. “Okkur langar til að vera með reglulega fræðslu sem hjálpar okkur í að ná því markmiði. Til þess að starfsmenn finni að þeir eigi þátt í að skapa starfsmenntunarmenningu innan okkar fyrirtækis þá mundum við vilja að þeir taki þátt í þeirri greiningu sem þarf að fara fram til að setja upp fræðsluáætlun til 3ja ára,, segir í rökstuðningi fyrirtækisins með umsókninni.

Ráðgjafi verkefnisins er Miðstöð símenntunar á suðurnesjum.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er fengin að láni af vefsíðu fyrirtækisins.