Aukinn fjöldi umsókna
Mikil aukning hefur orðið í fjölda umsókna sem berast Starfsafli nú á sumarmánuðum og hafa þær aldrei verið fleiri samanborið við fyrri ár. Um er að ræða umsóknir vegna eigin fræðslu fyrirtækja, verkefnisins Fræðslustjóra að láni og stakra námskeiða starfsmanna, s.s.þjónustunámskeið, ökupróf og öryggisnámskeið, svo dæmi séu tekin. Það er ljóst að fyrirtæki eru vel með á nótunum um mikilvægi þess að fjárfesta í starfsmenntun.
Í því samhengi er áhugavert að skoða markaðspunkta greiningardeildar Arion banka en samkvæmt þeim þá ber fræðslustarfsemi höfuð og herðar yfir aðrar atvinnugreinar í atvinnusköpun. Þannig hefur störfum í tengslum við fræðslustarfsemi fjölgað um 40% frá árinu 2011, eða um 2.600 störf sem er mesta fjölgunin í stöðugildum talið, utan sem innan höfuðborgarsvæðisins. Þessar tölur byggir greiningardeildin á tölum frá Hagstofu Íslands.