Ársfundur Starfsafls vel sóttur

Ársfundur Starfsafls var haldinn fimmtudaginn 12. maí síðast liðinn á Vox Club, Hilton Reykjavík Nordica. Þetta var í fjórða sinn sem haldinn er opinn fundur þar sem fulltrúum fyrirtækja, eigendum sjóðsins, ráðgjöfum sem starfa á vegum sjóðsins og öðrum samstarfsaðilum var boðið. Mæting var góð og það mátti finna að gestum fannst gott að koma á ársfund eftir tveggja ára hlé, en síðast var haldinn ársfundur vorið 2019. 

Dagskrá fundarins var stutt og hnitmiðuðu þar sem fræðsla var kjarni alls.

Formaður stjórnar Starfsafls, Hlíf Böðvarsdóttir,  bauð gesti velkomna. Í ávarpi sínu ræddi hún um stöðuga þróun vinnumarkaðarins  og þá hvernig nýjar kynslóðir kalla á nýjar áherslur í fræðslumálum sem mikilvægt er að mæta. 

Þá tók Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsafls við og fór yfir starfsárið en ræddi einnig viðbrögð og aðgerðir sjóðsins á meðan á alheimsfaraldri stóð.  Hún ræddi einnig mikilvægi þess að fyrirtæki setji sér  stefnu í fræðslumálum, haldi fræðslubókhald og fjárfesti í sumarstarfsfólki, svo fátt eitt sé talið. 

Að lokinni yfirferð Lísbetar tók Unnur Guðríður, einn eiganda og markaðsstjóri Lemon til máls og kynnti netskóla Lemon, en skólinn er afurð klasaverkefnis sem meðal annars var styrkt af Starfafli.  Að loknu sínu erindi dreifði hún um salinn gjafakortum til gesta þar sem boðið var í hressandi djús og samloku að hætti Lemeon.  

Aðs síðustu var Birna Dröfn Birgisdóttir, doktorsnemi í sköpunargleði með erindi undir yfirskriftinni; með sköpunargleðina að vopni.  Hún snerti sannarlega við gestum og var vel klappað fyrir henni að loknu erindi. 

Fundarstjóri var Hugrún Elvarsdóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði SA og stjórnarkona í stjórn Starfsafls

Starsfafl kann þeim bestu þakkir fyrir sín innlegg sem voru áhugaverð og upplýsandi.

Að loknum erindum var boðið upp á veitingar og var mikið spjallað og ljóst að gestum þótti gott að hittast í raunheimum og taka púlsinn hver á öðrum. 

Hægt er að sjá myndir frá fundinum á fésbókarsíðu Starfsafls.