Ársfundur Starfsafls
Ársfundur Starfsafls var haldinn þriðjudaginn 31. maí sl. á Hilton Reykjavík Nordica. Góð mæting var á fundinn en auk stjórnar sjóðsins var fulltrúum eigenda sjóðsins boðið til fundarins.
Að loknu ávarpi stjórnarformanns, Fjólu Jónsdóttur, fór framkvæmdastjóri Starfsafls, Sveinn Aðalsteinsson, yfir starfsemi sjóðsins og gerði grein fyrir ársreikningi. Sagði hann sjóðinn skila hagnaði annað árið í röð og ástæður þar að baki væru m.a. aukin umsvif fyrirtækja á starfssvæði sjóðsins og betra atvinnustig. Þá fór hann ítarlega yfir úthlutanir styrkja, en aukning hefur orðið í styrkjum til einstaklinga og fyrirtækja sem er mikið ánægjuefni.
Sbr. reglur sjóðsins eru formannsskipti á tveggja ára fresti og lét Fjóla Jónsdóttir, Eflingu, af störfum sem formaður stjórnar og við tók Guðrún Eyjólfsdóttir, SA.
Þá lét framkvæmdastjóri jafnframt af störfum eftir 10 ára störf fyrir Starfsafl. Stjórn sjóðsins þakkaði Sveini vel unnin störf og bauð jafnframt nýjan framkvæmdastjóra, Lísbetu Einarsdóttur, velkomna til starfa.
Stjórn og starfsfólk Starfsafls ásamt fráfarandi framkvæmdastjóra, Sveini Aðalsteinssyni.