Álverið í Straumvík styrkt um 2,4 milljónir
Í upphafi mánaðarins veitti Starfsafl fyrirtækinu Rio Tinto á Íslandi hf. sem rekur álverið í Straumsvík, 2, 4 milljónir í styrk vegna námskeiða fyrir starfsfólk og áskriftar að rafrænu námsumhverfi. Á bak við styrkupphæðina eru 375 starfsmenn fyrirtækisins.
Fyrirtækið er með öfluga stefnu í fræðslumálum og rekur meðal annars sinn eigin skóla, Stóriðjuskólann. Þess utan er boðið upp á margs konar fræðslu, t.d. þjálfun í tæknilegri færni starfsmanna á ýmsum sviðum, leiðtogaþjálfun, nýliðafræðslu, fræðslu um öryggis-, heilsu- og umhverfismál, mannleg samskipti og hópastarf.
Styrkur Starfsafls er samkvæmt reglum þar um 75% af reikningi fyrir félagsmenn.*
Á vefsíðu fyrirtækisins segir eftirfarandi:
Starfsmenn ISAL eru tæplega 400 talsins. Sérfræðingar, stjórnendur og millistjórnendur eru hátt í 70 og eru flestir þeirra með háskólamenntun. Flestir hafa menntun á sviði verkfræði og tæknifræði, en einnig eru í okkar sérfræðingahópi viðskiptafræðingar, vörustjórnunarfræðingar og fólk með háskólapróf í jarðefnafræði, eðlisfræði, tölvunarfræði, hagfræði, félagsfræði og sálfræði svo fleiri dæmi séu nefnd. Um 90 iðnaðarmenn starfa hjá álverinu; bifvélavirkjar, vélvirkjar, rafvirkjar, kokkar, rafeindavirkjar, málarar, múrarar o.fl. Ennfremur eru um 30% stjórnenda og sérfræðinga einnig með iðnmenntun. Ríflega 240 starfsmenn hafa lokið námi í Stóriðjuskólanum (stóriðjugreinar og áliðjugreinar) frá stofnun hans árið 1998. Aðrir starfsmenn eru ófaglærðir.
Nánari upplýsingar um styrki til fyrirtækja eru veittir á skrifstofu Starfsafls.
* Öll fyrirtæki sem greiða iðgjöld af starfsfólki til Eflingar, VSFK eða Hlífar, geta sótt um í sjóðinn. Hámark veittra styrkja á almanaksári er 3 milljónir króna.
Myndin er fengin að láni.