Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Alp hf. Fyrirtækið rekur bílaleigur undir merkjum AVIS um land allt sem gerir viðskiptavinum fyrirtækisins kleyft að leigja bíl á einum stað og skila honum á öðrum. Einkunnarorð fyrirtækisins eru „Að gera betur“ og endurspeglast þau einkunnarorð heilt yfir í rekstrinum, þar með talið í mannauðs- og fræðslumálum.
Fyrirtækið hefur vaxið ört og eru starfsmenn fyrirtækisins í dag um 160 talsins og á háannatíma starfa allt að 220 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Með verkefninu vill fyrirtækið bregaðst við þeim mikla vexti sem fyrirtækið hefur gengið í gegnum undanfarin ár og formfesta enn frekar þjálfun starfsfólks svo það geti sinnt störfum sínum af fagmennsku.
Verkefnið er styrkt af Starfsafli og SVS og felur það í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.
Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Ráðgjafi verkefnisins er Miðstöð símenntunar á suðurnesjum.
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550
Myndin er fengin að láni af vef fyrirtækisins.