Breytingar á reglum um fyrirtækjastyrki

Um áramót taka gildi breytingar á eftirfarandi reglum:

Fræðslusöfn og fræðsluöpp verða aðeins styrkt um 50% af reikningi í stað 90%. Á móti kemur að einfaldað verklag verður tekið upp þar sem  eingöngu þarf að skila inn grunngögnum með umsókn.  Ekki verður lengur gerð krafa um greinargerð, fræðslu- eða innleiðingaráætlun, líkt og núgildandi reglur gera kröfu um. Einstaklingsáskriftir sem fyrirtæki kaupa fyrir starfsmenn sína verða áfram styrktar um 90% af reikningi. 

Stjórn Starfsafls hefur ávallt litið svo á að fræðslusöfn og fræðsluöpp geti verið gagnleg viðbót við það námsframboð sem fyrirtæki og starfsfólk hafa aðgang að. Samhliða ber stjórn þó að tryggja að fé sjóðsins sé nýtt á sem skilvirkastan hátt. Ítarleg yfirferð á gögnum síðustu missera hefur leitt í ljós að nýting þessara lausna, þegar litið er til kostnaðar á hvern styrkþega, hefur ekki reynst í samræmi við markmið sjóðsins. Breytingarnar endurspegla því heildarmat á gögnum og eru ætlaðar að tryggja jafnræði, skilvirkni og ábyrga ráðstöfun fjármuna.

Ítarleg yfirferð á gögnum síðustu missera hefur leitt í ljós að nýting þessara lausna, þegar litið er til kostnaðar á hvern félagsmann, hefur ekki reynst í samræmi við markmið sjóðsins. Breytingarnar endurspegla því heildarmat á gögnum og eru ætlaðar að tryggja jafnræði, skilvirkni og ábyrga ráðstöfun fjármuna.

Aðrar breytingar á reglum varða sýnatökur og akstur, en  sýnatökur sem framkvæmdar eru vegna undirbúnings gæðastjórnunarnámskeiða verða styrkhæfar frá áramótum sem og akstur vegna námskeiða þar sem það á við. Hvorutveggja hefur hingað til ekki fallið undir styrkhæfni sjóðsins.

Fyrrgreindar breytingar voru samþykktar á stjórnarfundi Starfsafls 16. maí sl. og taka gildi 1. janúar 2026. Þær ná einungis til reikninga sem gefnir eru út eftir þann tíma.

Um Starfsafl:

Öll fyrirtæki sem greiða iðgjöld af starfsfólki til Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, geta sótt um í sjóðinn.  Sótt er um á www.attin.is

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband í síma 5181850 eða með tölvupósti á [email protected]  Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.

Starfsafl  áskilur sér rétt til að gera athugasemdir eða takmarka styrkveitingu ef verðlagning náms getur ekki talist í samræmi við viðmið markaðarins, ef ætla má að skilgreindur undirbúningstími sé umfram það sem eðlilegt getur talist, ef vísbendingar eru um að verðlagning taki til ráðgjafar eða ber  þróunarkostnað umfram það sem eðlilegt má teljast. Að gefnu tilefni áskilur Starfsafl sér rétt til að hafna umsóknum.