Hvernig getur fyrirtæki fullnýtt mögulegan rétt ?

Nýlega barst Starfsafli afar afdráttarlaus fyrirspurn sem gera má ráð fyrir að endurspegli vangaveltur margra fyrirtækja: Hvernig er hægt að fullnýta réttinn til fræðslustyrkja? Það er auðskilið að fyrirtæki spyrji þessarar spurningar og því  við hæfi að svara henni  hér, öðrum áhugasömum til upplýsinga, í stuttum texta sem tekur 3 mínútur að lesa.  

Áður en lengra er þó haldið ber að undirstrika að tekjur sjóðisins eru ákveðið starfsmenntaiðgjald  sem samið er um í kjarasamningum.  Gjaldið er 0.3% af af launum og er greitt með öðrum launatengdum gjöldum. Réttur fyrirtækis hvílir því á kjarasamningsbundnum rétti starfsfólks og því ber að halda á lofti.

Réttur fyrirtækis hvílir því á kjarasamningsbundnum rétti starfsfólks og því ber að halda á lofti.  

Öll fyrirtæki eiga samkvæmt reglum rétt á allt að fjórum milljónum króna á ári, óháð stærð. Ljóst er þó að ef allir nýttu hámarkið þá stæði sjóðurinn ekki undir sér. Einungis um eitt prósent fyrirtækja greiðir milljón króna eða meira í formi starfsmenntaiðgjalds árlega og endurspeglar það að íslenskur vinnumarkaður er að stærstum hluta skipaður litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Að því sögðu eru það aðeins stærstu fyrirtækin, þau sem greiða hvað mest í iðgjöld, sem ná að fullnýta mögulegan rétt. 

Á síðasta ári greiddi meðalfyrirtæki undir hundrað þúsund krónum í iðgjöld vegna síns starfsfólks, sem gefur til kynna umfang þeirra og rekstrarstærð. Að þessu sögðu er ljóst að fullnýting styrkheimilda er aðeins raunhæf  hjá þeim stærstu, jafnvel þótt unnið sé markvisst að fræðslu og allar fræðsluþarfir uppfylltar. 

Ef fyrirtæki greiðir eina milljón króna á ári skiptist sú fjárhæð í tvo styrktarsjóði ef svo má segja, annars vegar styrki til fyrirtækja sem Starfsafl afgreiðir og hins vegar styrki til einstaklinga sem afgreiddir eru í gegnum hlutaðeigandi stéttafélög í umboði Starfsafls. Ef fyrirtækið fær til dæmis úthlutað hálfri milljón í fyrirtækjastyrki má gera ráð fyrir að svipuð, ef ekki hærri, fjárhæð renni til starfsfólksins í formi einstaklingsstyrkja. Í þeim tilvikum má segja að markmiði um jafnvægi sé náð: að fyrirtækið fái að minnsta kosti til baka það sem það hefur greitt í starfsmenntaiðgjöld.  Allt umfram það telst ávinningur ef litið er á krónur og aura.  

Annað og veigameira atriði er að tryggja að fræðslustarf sé í samræmi við þarfir fyrirtækisins og starfsfólks þess og uppfylli nútíma kröfur um fræðslu og hæfni starfsfólks.  Til þess er leikurinn gerður. 

Starfsafl hvetur fyrirtæki eindregið til að forðast að kaupa fræðslu eingöngu til að nýta ónýttan rétt. Mikilvægara er að horfa á heildarþarfir rekstursins og byggja upp hæfni starfsfólks með markvissum og langtímaávinningi að leiðarljósi. Slík nálgun tekur tíma en skilar margþættum ábata. 

Starfsafl hvetur fyrirtæki eindregið til að forðast að kaupa fræðslu eingöngu til að nýta ónýttan rétt. Mikilvægara er að horfa á heildarþarfir rekstursins og byggja upp hæfni starfsfólks með markvissum og langtímaávinningi að leiðarljósi. Slík nálgun tekur tíma en skilar margþættum ábata. 

Fyrir fyrirtæki sem vilja taka fræðsluna föstum tökum og eða vera markvissari í sinni nálgun og fullvissa sig um að nauðsynleg fræðsla fái það vægi sem hún þarf, þá er gott að hafa eftirfarandi til viðmiðunar:

Fræðsla sem fyrirtæki fjárfesta í og er styrkhæf er hægt að skipta í þrjá meginflokka til einföldunar en þó með einhverri skörun sín á milli. 

1. Fræðsla tengd rekstrarhæfni fyrirtækis
Hún nær til þjálfunar sem tryggir lagalega og rekstrarlega starfshæfni, svo sem vinnuvernd, gæðastjórnun, endurmenntun atvinnubílstjóra, flugvernd, skyndihjálp og öryggis- og brunavarnir.

2. Samskipti og sjálfsefling
Í þessum flokki eru meðal annars samskipti, sjálfsefling, einelti á vinnustað,  leiðtogafærni, stjórnun,  fræðsla um inngildingu og menningarlæsi og tungumálanám 

3. Starfsþróun
Hér er átt við fræðslu sem styður við framtíðarmarkmið einstaklinga og fyrirtækis, svo sem tölvulæsi, leiðtoga og stjórnunarnám, vinnu- og  meiraprófsréttindi og aðra sérhæfða og einstaklingsmiðaða fræðslu, þ.m.t. nám til starfsþróunar innan vinnustaðar sem utan, nám sem gefur viðurkenningu á færni eða aukin réttindi. 

Leiðarstefið er, í upphafi skal endinn skoða.  Við hvetjum fyrirtæki til að skoða reksturinn heildstætt og greina raunverulegar fræðsluþarfir innan einstakra starfshópa, verkefna eða deilda og taka nýtingu á mögulegum rétt þaðan.  

Að lokum má segja að það að klára réttinn sé ekki hið sama og að fullnýta hann. Sönn fullnýting felst ekki í því að tæma fjárheimildir heldur í því að byggja upp fyrirtæki sem hefur mætt eigin fræðsluþörfum af heilindum og er þannig búið þeim styrk, þeirri hæfni og þekkingu sem framtíðin kallar á. Þar liggur raunverulegur ávinningur, ekki í upphæðum heldur í því að starfsfólkið og fyrirtækið allt standi reiðubúið til að takast á við verkefni morgundagsins.

Að lokum má segja að það að klára réttinn sé ekki hið sama og að fullnýta hann. Sönn fullnýting felst ekki í því að tæma fjárheimildir heldur í því að byggja upp fyrirtæki sem hefur mætt eigin fræðsluþörfum af heilindum og er þannig búið þeim styrk, þeirri hæfni og þekkingu sem framtíðin kallar á. Þar liggur raunverulegur ávinningur, ekki í upphæðum heldur í því að starfsfólkið og fyrirtækið allt standi reiðubúið til að takast á við verkefni morgundagsins.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband í síma 6930097 eða með tölvupósti á [email protected] Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, eins og áður segir, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.