Iðgjöld og styrkir – rýnt í ársskýrslu 2024

Hlutverk Starfsafls er margþætt og felur meðal annars í sér áherslu á kynningar-og hvatningarstarf er tengist starfsmenntun, að hafa frumkvæði að þróunarverkefnum í starfsmenntun og kanna þarfir atvinnulífsins fyrir starfsmenntun almennra starfsmanna.

Dagleg störf speglast einna helst í umsýslu og afgreiðslu styrkja til fyrirtækja og einstaklinga vegna starfsmenntunar samkvæmt nánari reglum stjórnar, styðja við skipulag og stefnumótun fræðslu í fyrirtækjum, aðkomu að námsefnisgerð og öðrum þeim verkefnum sem aðilar semja sérstaklega um í kjarasamningi

 

Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald, hluti af launatengdum gjöldum og samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.

Fram til ársins 2008 naut sjóðurinn framlags úr atvinnuleysistryggingasjóðs en frá 2008 hefur hann ekki notið ríkisframlaga heldur verið alfarið fjármagnaður af aðilum vinnumarkaðarins.

Þau fyrirtæki sem greiða hæstu fjárhæðirnar, að einu undanskyldu, eru að greiða undir sex milljónum króna á ári sem renna þá bæði til einstaklings- og fyrirtækjastyrkja.  Þessi fyrirtæki má telja á fingrum annarar handar þar sem flest fyrirtæki greiða mun lægri fjárhæðir enda fer greidd fjárhæð eftir fjölda starfsfólks og fyrirtæki hér á landi eru flest lítil eða meðalstór.

Í þessu felst hinsvegar að fyrirtæki sem fullnýtir rétt sinn og hvetur starfsfólk til að gera slíkt hið sama getur náð góðri ávöxtun, bæði fjárhagslegri og hvað mannauð varðar. Það er því margþættur ávinningur fólginn í því að skapa menningu innan fyrirtækis sem byggir á fræðslu- og þekkingaröflun og hvetur til hvorutveggja.

Heildarfjárhæð greiddra iðgjalda til Starfsafls árið 2024 var rétt undir 579 milljónum króna og er það 11,3 % hærri fjárhæð en frá árinu 2023.  Heildarfjárhæð greiddra styrkja til fyrirtækja og einstaklinga auk sértækra styrkja var 459 milljónir króna.

Árskýrslu Starfsafls fyrir árið 2024 má nálgast á vefsíðu sjóðsins, undir gagnasafn. 

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband í síma 5181850 eða með tölvupósti á [email protected] Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, eins og áður segir, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.

Myndin er fengin hér