Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Capital Hotels. Um klasaverkefni er að ræða sem nær til fjögurra hótela alls undir merkjum Capital Hotels; B59 Hótel ehf, City Park hótel ehf, Hótelkeðjan ehf og Capital inn ehf.
Eins og nafnið gefur til kynna er um hótel að ræða, þrú í Reykjvík og eitt í Borgarnesi. Samanlagður fjöldi starfsfólks er um 100.
Í rökstuðningi fyrirtækisins með umsókn segir eftirfarandi:
Fyrirtækið er í miklum vexti og hefur vaxið hratt síðustu árin. Því fylgir aukin starfsmannavelta og köllun á bættari verkferla þegar kemur að starfsháttum og þjálfun starfsmanna.
Við höfum mikinn áhuga á að fá fræðslustjóra að láni til að efla starfsfólkið okkar. Við viljum með þessu verkefni setja niður áætlun svo fræðsla starfsfólksins verði sett niður á markvissari máta en hefur verið. Við teljum að með því að leggja rækt við fólkið okkar, efla það og styrkja mun fyrirtækið ná betur markmiðum sínum. Við viljum samstilla verkferla á hótelunum, auka þjónustuna og skapa sterka fyrirtækjamenningu þar sem starfsfólkinu líður vel og vill vinna í til lengri tíma.
Tveir sjóðir koma að verkefninu, Starfsafl og Landsmennt. Ráðgjafi verkefnisins er Eva Karen Þórðardóttir hjá Effect ehf, en hún hefur stýrt fjölda verkefna á þessu sviði fyrir sjóðina.
Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.
Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.